Njarðarangi

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Maulisia mauli
Danska: Mauls skulderlysfisk
Enska: Mauls searsid

Njarðarangi er lítill fiskur, þunnvaxinn og frekar hávaxinn. Hann er hausstór hausinn er um þriðjungur af lengd fisksins. Ennisbein myndar breiða þrístrenda plötu yfir augum sem eru stór og trjónan er alllöng eða viðlíka og lárétt þvermál augna. Kjafturinn er hins vegar lítill. Bak- og raufaruggi eru andspænis hvor öðrum en bakuggi er aðeins lengri og nær lengra fram.

Báðir þessir uggar eru á eins konar fæti eða upphækkun. Ey og kviðuggar eru frekar litlir. Hreistrið er smátt og hausinn er hreisturslaus.

Af ljósfærum hefur njarðarangi spyrðuljós, miðkviðarljós, raufaruggaljós, ofanraufarljós, ofankviðuggaljós og brjóstljós. Óljóst er með miðljós og hálsljós. Njarðarangi verður um 30 cm á lengd.

Litur: Njarðarangi er brúnn á lit.

Geislar: B: 17-22; R: 15-19.

Heimkynni: Njarðarangi hefur fundist í Norður- Atlantshafi, m.a. í Biskajaflóa, við Madeira (í maga stinglax), vestan Bretlandseyja, við Ísland og Vestur-Grænland. Einnig er hann við Suður-Ameríku undan Súrínam og Frönsku- Gvæjana og í Gíneuflóa við Afríku. Þá er hann í Indlandshafi.

Hér við land veiddust tveir, 16 og 17 cm langir, á 780-870 m dýpi djúpt út af Selvogsbanka (65°56´N, 22°02´V) í marsmánuði árið 1971 og einnig varð hans vart á grálúðuslóð vestan Víkuráls í maí og desember árið 1996. Þá veiðist hann alloft djúpt vestur til suðvestur af Reykjanesi.

Lífshættir: Njarðarangi er úthafs-, miðsævis-, djúp- og botnfiskur sem veiðst hefur á 400-1000 m dýpi.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?