Nefhali

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Coelorinchus labiatus
Enska: Spearsnouted grenadier

Nefhali er langvaxinn og hausstór fiskur með langa trjónu. Trjónan er 45-49% af hauslengdinni, oddhvöss og með skörpum hliðarbrúnum, haus er hreisturlaus að neðan. Að frátöldum köntum og brúnum er haus að ofan ýmist hreisturlaus eða með smátt og gisið hreistur. Allar brúnir eða kantar á haus eru sterkleg og með grófum broddum. Augu eru stór, þvermál þeirra er 26-28% af hauslengd. Fjarlægð frá afturjaðri augna að jaðri tálknaloka jöfn eða lítið eitt minni en þvermál augna. Kjaftur er frekar smár, lengd efri kjálka mun minni en þvermál augna. Hökuþráður er lítill, um fjórðungur af þvermáli augna. Tennur í efra skolti eru á breiðu, stuttu belti sem nær ekki aftur að kjaftvikum. Í neðra skolti mynda tennur langt, miðlungsbreitt belti sem nær aftur fyrir kjaftvik. Innri tálknbogatindar 7—9 á fyrsta og öðrum tálknboga. Ljósfæri á kviði er stutt og sést óglöggt, raufin er alveg aftur við raufarugga. Nefhali getur náð um 50 cm heildarlengd.

Litur er ljósgrár, neðraborð hauss ljóst. Greinilegur svartur hringur er umhverfis augu. Kok og tálknalok eru svört að innan. Fremri bakuggi gráleitur.

Geislar: Dl: II+7-9;- E: 1+16-19.

Heimkynni nefhala eru í austanverðu Atlantshafi, frá Grænhöfðaeyjum norður til Biskajaflóa, vestur og norður fyrir Írland og Bretlandseyjar. Þá finnst hann við Asóreyjar. Við Ísland veiddist nefhali í fyrsta skipti árið 2009, er þrír fiskar fengust á 1120-1190 m dýpi á grálúðuslóðinni vestur af Víkurál (65°27'N, 28°42'V). Árið 2010 veiddust síðan tveir í viðbót á 890-910 m dýpi í Rósagarði (63°38'N, 13°23'V). Heildarlengd þessara fiska var 20—23 cm.

Lífshættir. Nefhali er miðsævis-, botn- og djúpfiskur sem veiðst hefur á 460-2220 m dýpi.

Fæða er einkum litlir fiskar og botnlæg krabbadýr.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?