Náskata

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Leucoraja fullonica
Danska: gøgerokke
Færeyska: nebbaskøta
Norska: nebbskate
Sænska: gökrocka, näbbrocka
Enska: Fuller's ray, shagreen ray, shagreen skate
Þýska: Chagrinrochen
Franska: raie chardon
Spænska: raya cardadora
Portúgalska: cardadora, raia-espinhosa, raia-pregada
Rússneska: Шагреневый скат / Shagrénevyj skat

Helsta einkenni náskötu er mikill fjöldi oddhvassra og afturbeygðra tanna. Í efri skolti eru 66-68 raðir og í neðra skolti allt að 72 raðir en aðrar tegundir í norðurhöfum eru venjulega með 30-45 raðir. Trjóna er allhvöss og miklu lengri, mjórri og framteygðari en á tindaskötu. Augu eru stór. Kjaftur er frekar lítill og nasir eru nærri kjaftvikum. Skífa er þakin mjög smáum tönnum sem eru bæði ofan og neðan á henni en einnig á trjónu og börðum. Hali er alllangur og grannur. Miðlægar gaddaröð vantar á bol og hala á fullorðnum náskötum en finnst á ungum fiskum. Á framhluta skífu, aftan hnakkans, er aðeins ein stutt röð af 3-9 (10) göddum. Tvær samsíða raðir um 50 gadda (þeir geta verið á bilinu 42-64) eru á hala en miðlægu röðina vantar. Ungar skötur eru með fleiri gadda en gamlar. Á innri jaðri augabrúna er ein röð 6-9 gadda. Herðablaðsgadda vantar oft hjá fullorðnum náskötum. Á milli bakugga er langt bil og eru engir gaddar þar. Náskata getur orðið 120 cm á lengd eða meira.

Litur: Náskata er grá eða grábrún á lit að ofan en hvít að neðan.

Heimkynni hennar eru í norðaustanverðu Atlantshafi frá Íslandsmiðum til Færeyja og Norður- Noregi suður í norðanverðan Norðursjó og vestur fyrir Bretlandseyjar til Frakklands, Spánar og Portúgals. Einnig er hún í vestanverðu Miðjarðarhafi og við Norðvestur-Afríku.

Hér við land urðu vísindamenn fyrst varir við náskötu árið 1896 en áður höfðu fiskimenn lengi þekkt hana enda var hún áður alltíð við suður- og suðvesturströndina, t.d. við Vestmannaeyjar og út af Grindavík. Sennilega flækist hún allt norður í Djúpál undan Vestfjörðum og við sunnanverða Austfirði verður hennar einnig vart. Nú virðist náskata ekki vera eins algeng á Íslandsmiðum og fyrr á árum. Í nóvember árið 1973 veiddist ein 75 cm löng suðvestur af Selvogsbankatá og önnur veiddist í október á 1976 á 1000 m dýpi undan Suðausturlandi. Í mars árið 1995 veiddust tvær náskötur á 915-1000 m dýpi í utanverðu Háfadjúpi og í október árið 1996 veiddist ein á 1465 m dýpi á Reykjaneshrygg og hefur ekki frést af henni dýpra. Þá veiddist í ágúst 1998 náskata á 53 m dýpi í Faxaflóa (64°14´N, 22°16´V).

Lífshættir: Náskata hefur veiðst á 30-1465 metra dýpi en sennileg heldur hún sig mest á um 100-500 metra dýpi.Fæða hennar er alls konar fiskar og krabbadýr, en einnig smokkfiskar og fleira. Um got hér við land er ekkert vitað en 8-10 cm löng og 5 cm breið pétursskip hafa fundist.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?