Marsnákur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Stomias boa ferox
Danska: boafisk
Færeyska: Boa-drekafiskur
Norska: storkjeft
Enska: boa dragonfish
Franska: dragon boa

Marsnákur er mjög langvaxinn og þunnvaxinn fiskur. Mesta hæð er um hausinn, kjaftur er mjög stór og skástæður og nær langt aftur fyrir augu. Stórar oddhvassar og misstórar tennur eru á framskolti og neðriskolti. Aftan til í efri skolti og á tungubeini eru smágerðar tennur og tvær veiðitennur eru á plógbeini. Á neðri skolti er stór skeggþráður. Augu eru í meðallagi. Bakuggi er stuttur og mjög aftarlega rétt framan við sprorð. Andspænis bakugga er jafnlangur raufaruggi og eins í lögun. Eyruggar eru nokkuð langir og kviðuggar stærri og mjög aftarlega. Spyrðustæði er mjög grannt og sporður lítill. Enginn veiðiuggi. Hreistur er sexhyrnt, smátt og þunnt og laust á. Ljósfærin eru 82-91 meðfram endilangri kviðrönd, frá lífodda að sporði. Marsnákur getur orðið um 30 cm á lengd.

Litur: Marsnákur er svartur á lit.

Geislar: B:17-21; R: 19-23.

Heimkynni: Í Norður- Atlantshafi eru heimkynni marsnáks á milli 28°N og 65°N alveg norður til Íslands-og Grænlandsmiða. Þar er undirtegundin Stomias Boa ferox Reinhardt með 85-91 (oftast 87-89) ljósfæri á kviðrönd en í vestanverðu Miðjarðarhafi, undan Vestur- Afríku og sunnar, allt suður til 20°S, er Stomias boa boa með 82-88 (oftast 83-86) ljósfæri á kviðrönd.

Marsnákur veiddist fyrst hér við land á 400 m dýpi 120 sjómílur norðvestur af Bakksnesi í júlí árið 1948 en þá veiddust tveir. Síðan hefur hann veiðst alloft allt frá Norðfjarðardjúpi suður og vestur með landi norður til miðanna við Kolbeinsey en þar veiddist einn í september árið 1988.

Lífshættir: Marsnákur er miðsævis- og djúpfiskur sem veiðist sjaldan grynnra en á 300 m dýpi og allt niður á 1000 m dýpi og dýpra, en grynnkar á sér á nóttunni. Fæða er miðsævisfiskar og smákrabbadýr.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?