Marsíli

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Ammodytes marinus
Danska: havtobis
Færeyska: havnebbasild
Norska: havsil
Sænska: havstobis
Enska: Lesser sand-eel
Þýska: Kleiner Sandaal, Kleiner Sandspierling
Franska: lançon nordique
Rússneska: Северная песчaнка / Sévernaja pestsjánka, (Европейская) Mногопозвонковая песчaнка / (Jevropéjskaja) Mnogopozvonkóvaja pestsjánka

Marsíli er langvaxinn, mjór og sívalur fiskur. Haus er í meðallagi stór og frammjór og teygist neðri skoltur lengra fram en sá efri. Kjaftur er allstór og getur marsíli hleypt miðskoltsbeininu langt fram. Bak- og raufaruggi eru langir, bakuggi þó mun lengri. Sporðblaðka er sýld. Eyruggar eru allstórir en kviðugga vantar. Hreistur er smátt og slétt. Sundmaga vantar. Marsíli verður allt að 25 cm á lengd.

Litur: Marsíli er grænblátt á baki, blátt á hliðum með silfurblæ og silfurhvítt á kvið.

Geislar: B: 55-67; R:26-35; hryggjarliðir: 66-67 (meðaltal um 73 við Ísland).

Heimkynni marsílis eru í Norðaustur-Atlantshafi og Barentshafi frá Novaja Semlja og Hvítahafi, meðfram ströndum Noregs og inn í vestanvert Eystrasalt. Það er í Norðursjó og umhverfis Bretlandseyjar, við Færeyjar og Ísland. Einnig er marsíli við Austur- og Vestur-Grænland. Hér er marsíli allt í kringum land en það er algengara við suður-, suðvestur- og vesturströndina en undan Norður- og Austurlandi.

Lífshættir: Marsíli er meiri kaldsjávartegund en sandsíli. Það lifir á 10-150 m dýpi, oft í stórum torfum, á grófum sand-, malar- eða skeljabotni og grefur sig niður við minnstu truflun. Um göngur marsílis hér við land er lítið vitað en síðla sumars og á haustin virðast seiðin leita upp á grunnin þar sem fullorðni fiskurinn heldur sig. Á daginn að vori og sumri er marsílið á sveimi yfir botninum í leit að æti en það grefur sig í botninn á nóttunni. Á veturna fer minna fyrir því og virðist það þá vera grafið í botninn nema meðan á hrygningu stendur.

Fæða marsílis í Norðursjó er burstaormar, krabbadýalirfur, smákrabbadýr, fiskegg og seiði. Má ætla að hún sé svipuð hér.

Hrygning fer fram hér við suður-, suðvestur- og vesturströndina frá síðari hluta október til desember. Fundist hafa hrygningarstöðvar marsílis við Ingólfshöfða, út af Vík í Mýrdal og við Rif á Snæfellsnesi. Eru þær á sandbotni og á minna en 50 m dýpi. Egg eru botnlæg og fjöldi þeirra 9-20 þúsund. Klak hefst í lok mars, nær hámarki í byrjun maí og stendur fram í júní. Seiði eru sviflæg í tvo til fjóra mánuði þar til þau hafa náð um 4-5 cm lengd en þá leita þau botns. vöxtur er mjög mismunandi eftir svæðum og árum. Marsílið verður kynþroska eins til tveggja ára, flest eins árs, og það getur orðið 9-10 ára gamalt.

Nytjar: Marsílið er fæða fyrir þorsk, ýsu, ufsa og fleiri botnfiskategundir. Einnig hefur það verið veitt í bræðslu (sem sandsíli), einkum hafa Danir verið iðnir við þær veiðar. Hér hefur einnig verið reynt að veiða það (sem sandsíli) en með misjöfnum árangri því mikið hefur viljað veiðast að öðrum verðmætari tegundum með sem ekki eiga að fara í bræðslu. Í Norðursjó eru um 95% þess afla sem kallaður hefur verið sandsíli í raun marsíli og sennilega er það svipað hér.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?