Litla geirsíli

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Arctozenus risso
Danska: Rissos lakstobis
Færeyska: lítla lakstobis
Norska: liten laksetobis
Sænska: mindre laxtobis
Enska: White barracudina
Þýska: Rissos Lachsspierling
Franska: lussion blanche
Rússneska: Notolépis

Litla geirsíli er langvaxinn og þunnvaxinn fiskur. Haus er alllangur - um fimmtungur af lengd að sporði. Trjóna er mjög löng og oddmjó í endann. Augu eru stór og með fituhúð. Kjaftur er stór. Tennur eru á skoltum og gómbeinum en plógbein er tannlaust. Tunga er löng og með 12-17 tennur í tveimur röðum. Bakuggi er lítill og aftarlega, vel aftan við miðju. Raufaruggi er miklu lengri og aftar, nær næstum að sporði. Andspænis afturenda hans er lítill veiðiuggi. Sporður er lítill og sýldur. Eyr- og kviðuggar eru litlir og kviðuggar örlítið aftar en bakuggi. Roðið er fíngert og mjúkt, hreistur er smátt á bol og uggarótum og rák er greinileg. Litla geirsíli getur orðið 30 cm langt.

Litur: Litla geirsíli er silfrað á lit.

Geislar: B, 8-13; R: 28—34; hryggjarliðir: 72-86.

Heimkynni litla geirsílis eru í öllum heims- höfum, frá Norður- til Suður-Íshaf og það er algengt í Miðjarðarhafi og beggja vegna Norður-Atlantshafs.

Hér við land fannst litla geirsíli fyrst rekið við Vestmannaeyjar árið 1845. Það er nokkuð algengt hér og er aðalútbreiðslusvæði þess frá Rósagarði undan Suðausturlandi, suður og vestur með landi norður á grálúðuslóð vestan Víkuráls. Það hefur einnig fundist við Kolbeinsey og í Eyjafjarðarál, í Öxarfirði og undan Austfjörðum.

Lífshættir: Litla geirsíli er miðsævis-, djúp- og úthafsfiskur sem heldur sig mest á 200- 1000 m dýpi en hefur fundist allt niður á 2200 m dýpi. Fullorðnir fiskar eru á grunnslóð í tempraða beltinu og hitabeltinu.

Fæða er einkum smáfiskar, seiði og rækja. Litla geirsíli verður ýmsum fiskum að bráð eins og þorski og ufsa en einnig selum.

Fiskurinn hrygnir í heittempruðum og tempruðum sjó.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?