Langnefur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Harriotta raleighana
Færeyska: nevhavmús
Enska: bentnose rabbitfish, longnose chimaera
Þýska: Rüsselchimäre
Franska: chimère à nèz rigide, chimère-spatulae
Rússneska: Гариотта / Gariótta

Langnefur er allsérkennilegur fiskur útlits. Haus og trjóna Iíkjast mest fuglshaus og goggi. Hann er auðþekktur á trjónunni og mjög löngum hala, sem að vísu er þó oft slitinn af þegar upp úr sjónum kemur. Framan eyrugga er langnefur hálfsívalur en aftan þeirra er hann þunnvaxinn og smámjókkar aftur. Mesta hæð er við bakuggagadd.

Haus er allstór eða um 2/5 af lengdinni að sporði. Trjóna er þrístrend og meira eða minna flöt að ofan og neðan, mjúk á ungum fiskum en harðari á þeim eldri og beygist upp á gömlum hængum. Á hrygnum er trjónan slétt, en með röð af smáum og hörðum hnúðum á kynþroska hængum. Augu eru stór. Bakuggar eru tveir. Fremri bakugginn er þríhyrndur og fremst í honum er allstór og þunnur gaddur og er hann laus við uggann að ofan. Aftari bakuggi nær ekki að sporðböðku. Raufarugga vantar. Efri fön sporðugga er ótennt. Eyruggar eru mjög stórir og ná aftur fyrir kviðuggarætur.

Kviðuggar hænganna mynda göndul eða sáðrennu. Fullvaxnir hængar fá anga á enni sem verður vel þroskaður á kynþroska hængum. Langnefurinn getur náð um 120 cm lengd.

Litur: Nýveiddir hængar eru ljósbrúnir á lit, slímrákir eru fölleitar. Bak; Kvið- og eyruggar eru með dökkbrúna jaðra. Bakuggagaddur og göndull eru hvítleitir. Nýveiddar hrygnur eru ljósbrúnar, fölar í kringum augu og ofan við eyruggarætur.

Heimkynni: Langnefur á heimkynni beggja vegna Atlantshafs, að austan frá Austur-Grænlandsmiðum og Íslandi til Skotlands og áfram til Kanaríeyja. Þá er hann undan Máritaníu, Namibíu og Suður- Afríku. Í norðvestanverðu Atlantshafi finnst hann frá Nýja-Skotlandi suður til Chesapeake-flóa. Einnig er hann undan ströndum Brasilíu. Í Kyrrahafi finnst hann undan ströndum Japans, Kaliforníu, Ástralíu og Nýja-Sjálands .

Langnefur veiddist í fyrsta skipti á Íslandsmiðum á 750-800 m dýpi (ásamt digurnef) sunnan Selvogsbanka í apríl árið 1964 Í apríl 1965 veiddust tveir hængar, 56 og 58 cm langir, á 730-780 m dýpi djúpt undan suð- vestanverðu landinu (62°43'N, 24°30'V). Síðan hafa allnokkrir langnefir veiðst á miklu dýpi vestan-, sunnan- og suðaustanlands, þeirra á meðal 29 í botnvörpu á 630-1410 m dýpi suðvestur af Reykjanesi í mars 1993.

Við Ísland virðist aðalútbreiðslusvæði langnefs vera á djúpmiðum vestan- og sunnanlands.

Lífshættir langnefs eru lítt kunnir. Hann hefur veiðst á 200-2600 m dýpi en hér við land á rúmlega 500-1600 metra dýpi og er einna algengastur á 1000-1100 m. Fæða langnefs er meðal annars burstaormar, marflær og skeldýr.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?