Kræklingur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Mytilus edulis
Danska: blåmusling
Norska: blåskjell
Enska: blue mussel, common mussel
Þýska: Miesmuschel, Pfalmuschel
Franska: moule commun
Spænska: mejillón común
Portúgalska: mexilhão-vulgar
Rússneska: Мидия съедобная / Mídija sjedóbnaja

Kræklingur hefur tvær skeljar sem eru eins útlits. Skeljarnar eru þunnar með hvössum röndum. Þær eru breiðastar um miðjuna og ganga fram í oddmjótt nef. Ytra borðið er með óreglulegum vaxtarbaugum. Fullorðnar skeljar eru blásvartar á lit en ungviðið hefur oftast brúnleitar skeljar. Að innan eru skeljarnar ljósfjólubláar. Þegar kræklingurinn eldist, slitnar ysta lagið og ljósbláir flekkir myndast á skeljunum.

Oft sitja hrúðurkarlar eða mosadýr á kræklingnum. Skeljarnar festa sig við botninn með þunnum en sterkum þráðum sem myndast í spunakirtli dýrsins. Kræklingur er fullvaxinn 5 til 10 cm á lengd.

Krækling er að finna allt í kringum Ísland. Hann vex víða á klappar- og malarbotni. Einnig vex hann á bryggjustaurum og situr oft í þykkum klösum utan á þarastilkum. Hann finnst í fjörum og er einnig algengur allt niður á um 30 m dýpi.

Kræklingurinn síar fæðu sína úr sjónum. Fæðan er örsmáir svifþörungar. Kræklingurinn dælir sjónum inn í skelina, þar sem þörungarnir eru síaðir frá.

Kræklingur verður kynþroska strax á fyrsta ári. Hann hrygnir á sumrin. Kvendýrin losa egg og karldýrin svil og frjóvgun verður í sjónum. Lirfa þroskast úr egginu og berst með straumum nálægt yfirborði. Hún fær fljótlega utan um sig þunna, gagnsæja skel. Lirfan sest á botninn eftir tvær til átta vikur, helst þar sem eru þráðlaga þörungar. Algengt er einnig að hún setjist þar sem eldri kræklingar eru fyrir.

Á gróðurtíma svifþörunganna, frá vori fram á haust, geta eitraðir þörungar sprottið upp í miklu magni og valdið svokallaðri skelfiskeitrun. Skelfiskeitrunar hefur sem betur fer sjaldan orðið vart hér við land en kræklingur og aðrar samlokur í sjó, sem lifa að mestu leyti á svifþörungum, geta safnað í sig þessu eitri. Eitrið hefur ekki áhrif á samlokurnar sjálfar en eitrunin kemur fram hjá þeim sem borða skeljarnar.

Upplýsingar um vöktun eiturþörunga má finna hér

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?