Kambháfur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Pseudotriakis microdon
Færeyska: kambhávur
Norska: kattehaj
Sænska: oäkta katthaj
Enska: Atlantic false cat shark, false cat shark
Þýska: Falscher Katzenhai
Franska: requin à longue dorsale
Spænska: Musolón aleta large
Portúgalska: Tubarão-mona
Rússneska: Melkozúbaja akúla

Kambháfur er sívalur og bollangur og er bolurinn (frá aftasta tálknaopi að rauf) tæplega helmingur heildarlengdarinnar. Hausinn er flatur að ofan og um fimmtungur heildarlengdarinnar. Trjóna er stutt, flöt og bogadregin fyrir endann og tiltölulega lengri hjá ungum fiskum. Augun eru meðalstór og ávöl. Innstreymisop eru álíka löng og augu og rétt aftan við þau. Nasaop eru vel aðskilin og liggja nær kjafti en trjónu.

Tennur eru örsmáar og mjög margar, fínyddar og þrí- til fimmyddar í efri skolti. Kjaftur er allstór, bogadreginn og kjaftvikaskorur eru greinilegar í efri skolti en mjög stuttar í neðri skolti. Tálknaop eru lítil. Bakuggar eru tveir og sá fremri er mjög langur og bogadreginn og er kambháfur auðþekktur frá öðrum háfiskum í Norður-Atlantshafi á því hve þessi bakuggi er langur. Raufaruggi er líkur aftari bakugga í útliti en styttri og byrjar rétt aftan við fremri enda hans. Eyruggar eru frekar smáir og kviðuggar mjög litlir. Húðtennur eru lensulaga og með einn til fimm hryggi eftir endilöngu. Kambháfur getur orðið allt að 3 m langur en sá stærsti sem fengist hefur á Íslandsmiðum veiddist í Háfadjúpi árið 1915 og mældist 290 cm.

Litur: Kambháfur er dökkbrúngrár að lit og dekkstur á efri jaðri kviðugga, raufarugga og sporðblöðku.

Heimkynni: Kambháfur finnst beggja vegna Norður-Atlantshafs. Einnig hefur hann fundist í Kyrrahafi við Sandvíkureyjar (Hawaii), Japan, Taívan, Ástralíu og Nýja-Sjáland og í Indlandshafi norðan Madagaskar. Í norðaustanverðu Atlantshafi finnst hann við Senegal í Afríku, við Asóreyjar og frá Portúgal norður til Íslandsmiða. Í norðvesturhluta Atlantshafs er hann við strendur Bandaríkjanna, frá Nýju-Jersey til Nýju-Jórvíkur og við Kúbu.

Kambháfur veiddist fyrst hér við land við Vestmannaeyjar árið 1900. Árið 1914 veiddist einn í Háfadjúpi og annar ári seinna á svipuðum slóðum. Hann mældist 290 cm. Næst fréttist af kambháf við Ísland árið 1943 er einn fannst rekinn á fjörur neðan við Fagurhólsmýri í Öræfum. Þá liðu meira en 40 ár áður en tegundarinnar varð aftur vart á Íslandsmiðum en það var árið 1987 og frá því ári til ársins 2000 hefur að minnsta kosti 21 kambháfur veiðst við Ísland. Veiddust þeir allir á djúpslóð undan Suðvestur- og Suðurlandi þ.e. á 620-915 m dýpi í Skerjadjúpi, 610-695 m dýpi í Grindavíkurdjúpi, 600- 840 m dýpi suður af Vestmannaeyjum, 300- 590 m dýpi f Háfadjúpi og 420-550 m dýpi á Síðugrunnskanti. Árið 2009 veiddist 173 cm kambháfshængur á 550 m dýpi á Selvogsbankatá (63°08'N, 21046°V). Þeir kambháfar sem veiðst hafa við Ísland voru 173-290 cm langir og hængar voru í miklum meirihluta, en af þeim sem kyn er þekkt voru 14 hængar en einungis tvær hrygnur.

Lífshættir: Kambháfurinn er botnfiskur sem veiðst hefur á 200-1500 m dýpi. í 290 cm hrygnu sem veiddist hér við land (árið 1915) fundust tvö fóstur, hvort 85 cm. Fæða er ýmsir djúpfiskar, bæði brjósk- og beinfiskar auk hryggleysingja.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?