Jensenháfur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Galeus murinus
Færeyska: Jensenshávur
Sænska: isländsk sågfenshaj
Enska: mouse catshark
Franska: chien nordique, chien islandais
Spænska: pintarroja islándica
Rússneska: Исландский пилохвост / Islándskij pilokhvóst

Jensensháfur er allgildvaxinn og smávaxinn háfur, hálfþrístrendur að framan. Haus er allflatur og breiður um kinnarnar en mjókkar fram. Trjóna er allbreið og snubbótt og kjaftur fremur stór. Tennur eru smáar, hvassar og flestar þríyddar. Tálknaop eru mjög smá. Bolur er allgildur og helmingi lengri en hausinn. Stirtlan er sterkleg. Bakuggar eru mjög stuttir og afturbeygðir. Raufaruggi er alllangur, um það bil jafnlangur hausnum. Sporður er langur og neðri fönin allhá og skarð í henni aftast. Efri sporðrönd er sagtennt. Samstæðu uggarnir eru stórir og allir eru uggarnir hvasshyrndir. Húðtennur eru smáar nema randtennur sporðsins. Þær eru stórar og liggja í tveimur röðum, um 80 í hvorri röð. Rákin er greinileg og sveigist niður á stirtlunni. Jensensháfur nær 63 cm lengd.

Litur: Jensensháfur er mógrár að ofan, ljósgrár að neðan og afturrendur ugganna eru Ijósar. Kjaftur og tálknaklefar eru dökkfjólubláir að innan.

Heimkynni jensensháfs eru á djúpmiðum vestan, suðvestan, sunnan og suðaustan Íslands og milli Íslands og Færeyja. Þá mun hans hafa orðið vart við Asóreyjar. Hér fannst hann fyrst á 380 m dýpi í Háfadjúpi í júní árið 1915 þegar 63 cm langur hængur veiddist á Iínu. Í apríl árið 1971 veiddust þrír sem voru 37-48 cm langir suður af Reykjanesi (63°00'N, 23°27'V). Síðan hafa margir veiðst djúpt undan vestur-, suðvestur- og suður- ströndinni. Hann er nokkuð algengur á meira en 600 m dýpi suðvestur og vestur af landinu allt norður á móts við Víkurál.

Lífshættir háfsins eru Iítt kunnir. Þetta mun vera djúp- og botnfiskur sem veiðst hefur á 380-1730 m dýpi og gýtur hann eggjum líkt og flestar tegundir þessarar ættar. Í Háfadjúpi hefur fundist mergð af litlum pétursskipum hangandi í kóralgreinum og gætu þau tilheyrt þessari tegund eða gíslaháfi.

Fæða er m.a. ýmsir smáfiskar.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?