Ísþorskur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Arctogadus glacialis
Danska: Almindelig istorsk
Norska: Istorsk
Enska: Polar cod
Franska: Morue arctique

Útlit

Ísþorskur er langvaxinn með allstóran haus og stór augu. Augun eru nærri jafnlöng trjónulengdinni. Skoltar eru jafnlangir eða sá neðri teygist aðeins lengra fram. Kjaftur er örlítið skásettur. Á gómbeinum eru sterklegar tennur. Hökuþráð vantar eða hann sést ekki. Bakuggarnir þrír og tveir raufaruggarnir eru allir stuttir og gott bil á milli þeirra. Eyr- og kviðuggar eru vel þroskaðir og eru kviðuggar framan við rætur eyrugga. Sporður er sýldur. Rák er allgreinileg, ósamfelld og liggur í sveig yfir eyruggum en er að öðru leyti bein frá öðrum bakugga og aftur á sporð.

Ísþorskur verður um 50 cm á lengd.

Litur: Ísþorskur er dökkleitur, svartbrúnn á baki og hliðum en kviður ljósari. Uggar eru svartir.

Geislar: Bl: 10-13,- B2: 16-21,- B3: 20-25; Rl: 19-24,- R2: 19-26,- hryggjarliðir: 58-61.

Heimkynni

Heimkynni ísþorsks eru í Norður-íshafi norðan 70°N undan austurströnd Grænlands og við Vestur-Grænland. Þá er hann norðan Kanada og norðan austanverðrar Síberíu.

Í janúar 1995 veiddist 52 cm ísþorskur á 275 m dýpi á „Fætinum" svonefnda undan Suðausturlandi og er sá fyrsti sem hér veiðist. Í nóvember árið 1995 veiddist 33 cm ísþorskur í botnvörpu á 448 m dýpi út af Vestfjörðum (66°34'N, 25°12'V) og í mars árið 1999 veiddist einn 24 cm langur í botnvörpu á 256—300 m dýpi undan Suðausturlandi (64°47'N, 11°43'V). Í ágúst 2001 veiddist sá fjórði í rækjuvörpu á 448-494 m dýpi norðvestur af Hala (66°59'N, 24°15'V). Hann mældist 35 cm langur.

Lífshættir

Ísþorskur er uppsjávarfiskur sem heldur sig einkum á 10-25 m dýpi undir rekísnum í Norðurhöfum.

Fæða er mest ískóð, krabbaflær og fleira.

Ósaþorskur, Arctoýadus borosovi (Drjagin, 1932) sem getið var í fyrstu útgáfu bókarinnar Íslenskir fiskar (2006) er samkvæmt nýjustu rannsóknum sama tegund og ísþorskur.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?