Ingólfshali

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Coryphaenoides guentheri
Danska: Günthers skolæst
Færeyska: Gûnters langasporl
Sænska: spetsnosig skoläst
Enska: Guenther's grenadier

Ingólfshali er langvaxinn fiskur og þunnvaxinn aftan til. Hausinn er stór og augu mjög stór. Mesta hæð er við fremri rætur fremri bakugga. Þaðan fer fiskurinn smámjókkandi aftur eftir og endar sporðurinn í oddmjóum hala án sporðblöðku. Smáar oddhvassar tennur eru í 5 - 9 röðum í báðum skoltum. Í efri skolti fara tennur minnkandi frá ystu röð og inn eftir. Fremri bakuggi er hár og stuttur og annar geisli er sagtenntur eins og á loðhala og brynhala. Raufaruggi er lengri en bakuggi og nær lengra fram. Eyr- og kviðuggar eru allvel þroskaðir. Hreistur á bol og stirtlu er með þremur göddum, breiðum og stuttum, sem eru í nokkurn veginn samhliða röðum. Hausinn er hreistraður að ofan.

Ingólfshali getur orðið um 50 cm a lengd. Litur: Ingólfshali er brúnn en kjafthol og tálknahol dökkbrún eða svört.

Geislar: B1: 11-12.

Heimkynni ingólfshala eru í Norður- Atlantshafi við Vestur- og Austur-Grænland, vestan og sunnan Íslands, vestan Færeyja og Bretlandseyja suður til Asóreyja, Kanaríeyja og Vestur-Afríku og inn í Miðjarðarhaf. Þá hefur hans orðið vart norðan Labrador.

Hér fannst ingólfshali í Ingólfsleiðangrinum 1895-96 djúpt undan Suðurlandi (62°00'N, 21 °36'V á 1546 m dýpi, 62°06'N, 19°00'V á 1905 m dýpi) og Suðvesturlandi (64°34'N, 31° 12´V á 2379 m dýpi, 61°44'N, 30°29'V á 2077 m dýpi, 62°35'N, 28°30'V á 1669 m dýpi). Á síðari árum hefur hann veiðst reglulega í leiðöngrum Hafrannsóknastofnunar á djúpmiðum sunnan-, suðvestan- og vestanlands.

Lífshættir eru Iítt þekktir nema að þetta er botn- og djúpfiskur sem veiðst hefur a 830-2830 m dýpi. Fæða er m.a. botnlægir hryggleysingjar.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?