grásleppa (íslenska)

Hrognkelsi

Samheiti á íslensku:
grásleppa, rauðmagi
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Cyclopterus lumpus
Danska: stenbider kvabso=hrygna
Færeyska: rognkelsi
Norska: rognkall hængur, rognkjeks hrygna
Sænska: sjurygg, hængur=stenbit, hrygna=kvabbso
Enska: lump, lumpfish, lumpsucker
Þýska: Seehase
Franska: cycloptère, lompe
Spænska: lumpo jibado
Portúgalska: peixe-lapa
Rússneska: Пинагор / Pinagór, Рыба-воробей / Rýba-vorobéj, Морской воробей / Morskój vorobéj

Hrognkelsið er klunnalegur fiskur með stuttan haus og snjáldur, lítinn kjaft og smáar en beittar tennur. Fremri nasir eru útstæðar. Augu eru í meðallagi stór. Bolur er stuttur og kviður hálfflatur. Raufin er vel framan við raufaruggann. Stirtla er stutt en spyrðustæði allstórt. Bakuggar eru tveir og myndar fremri bakuggi háan kamb. Aftari bakuggi og raufaruggi eru andspænis hvor öðrum og líkir að stærð og útliti. Eyruggar eru allstórir, stuttir en breiðir og kviðuggar eru ummyndaðir í sogskál. Sporðblaðka er stór. Roðið er mjög þykkt og kallast hvelja. Það er alþakið smáum beinkörtum. Einnig eru stórar oddhvassar körtur í þremur einföldum röðum á hvorri hlið. Nær ein þeirra frá augabrún að sporði, önnur frá efri enda tálknaops að sporði en sú þriðja er meðfram kviðröndinni að stirtlu. Rák er engin.

Hrygnan, þ.e. grásleppan, getur orðið 60 cm löng en er oftast 35-54 cm og er hún mun stærri en hængurinn, rauðmaginn, sem hefur mælst lengstur 50 cm hér við land en er oftast 28-40 cm langur.

Litur grásleppunnar er dökkgrár að ofan en Ijósari á hliðum og hvít- eða Ijósgrænn að neðan. Rauðmaginn er dökkgrár að ofan og grágrænn að neðan en um hrygningartímann verður hann rauður eða rauðgulur að neðan.

Geislar: Bl: 6-8,- B2: 1+10,- R: 1+9-10; hryggjarliðir: 28.

Heimkynni hrognkelsis eru í Barentshafi, Hvítahafi og Norður-Atlantshafi suður til Biskajaflóa og allt til Portúgals. Það er í Eystrasalti og Norðursjó, umhverfis Bretlandseyjar, við Færeyjar og Ísland. Þá er það og við Austur- og Vestur-Grænland, við Kanada frá Hudsonflóa, Baffinslandi og Labrador til Nýfundnalandsmiða og suður til Chesapeakeflóa í Bandaríkjunum.

Hér við land er hrognkelsi allt í kringum landið en það hrygnir aðeins þar sem botn er harður.

Lífshættir: Hrognkelsið er göngufiskur sem heldur sig úti á meginhafi hluta úr árinu en kemur upp á grunnmið til þess að hrygna síðari hluta vetrar og fyrri hluta vors. Verður hrognkelsa oft vart á djúpmiðum hér við land í janúar og febrúar og veiðast þau þá oft í botnvörpur en þegar þau eru úti á reginhafi halda þau sig miðsævis og uppsjávar.

Merkingar á hrognkelsum hér við land sýna að þau leita til hrygningar á sömu staði og þau ólust upp á og koma þau því á sömu slóðir ár eftir ár ef þau lifa af hremmingar þær sem fylgja hrygningargöngum og hrygningu.

Í maga fullorðinna hrognkelsa hefur orðið vart við Ijósátu, sviflægar marflær, smáhveljur og fleira sem sýnir að þau halda sig uppsjávar í úthafinu. Hrognkelsaseiði éta ýmis smádýr í þaranum eins og t.d. krabbalirfur, krabbaflær, marflær og fiskseiði.

Hrygning fer fram á grýttum og þanggrónum botni á 0- 40 m dýpi. Hún hefst í febrúar eða mars og virðist sem oft komi fleiri en ein ganga á hvert svæði ef um einhverja hrognkelsagengd er að ræða. Hver ganga stendur stutt við eða tvær til þrjár vikur. Hrygning virðist byrja mun fyrr undan Norðurlandi en fyrir Suðvestur- og Vestur- landi og hrygna norðlenskar grásleppur yfirleitt um mánuði fyrr en stöllur þeirra fyrir sunnan. Hrygningartíminn stendur lengur yfir fyrir sunnan og vestan en fyrir norðan. Í byrjun ágúst kemur oft allstór hrygningarganga í Faxaflóa en annars er hrygningu að mestu leyti lokið í ágúst. Í nágrannalöndum okkar hrygnir grásleppan í febrúar til maí. Egg eru stór, um 2,5 mm í þvermál, botnlæg, og gætir hængurinn þeirra á meðan þau eru að klekjast út. Hann sér um að þeim berist nægjanlegt súrefni auk þess sem hann reynir að bægja óvinum frá þeim. Eggjafjöldi í hrygnu er 80-150 þúsund (100-350 þúsund í nágrannalöndum okkar). Klakið tekur tvær til þrjár vikur. Seiðin eru um 5 mm við klak og vel þroskuð. Þegar þau eru mánaðargömul eru þau 10 mm á lengd. Þau alast upp í þarabeltinu fyrst í stað en eftir um það bil eitt ár hverfa þau frá landi og halda sig uppsjávar í úthafinu þar til þau verða kynþroska 5-6 ára gömul og eru hængarnir þá 25-30 cm langir en hrygnurnar 34-40 cm.

Óvinir hrognkelsisins eru margir, auk mannsins og má nefna hákarl, búrhval og seli sem éta hrognkelsið með góðri lyst.

Nytjar: Um langan aldur hafa íslendingar neytt hrognkelsa, bæði grásleppu og rauðmaga, útlendingum til hins mesta hryllings. En nú eru grásleppuhrogn víða hátt metin sem eins konar kavíar og því er veitt mikið af grásleppu hér við land. Mestu af henni er hent og aðeins hrognin hirt. Árið 1984 varð grásleppuaflinn hér við land mestur, 13 þúsund tonn og hrognaframleiðsla 2800 tonn. Á tíunda áratug 20. aldar varð grásleppuaflinn mestur liðlega 6500 tonn árið 1997 og hrognaframleiðslan það árið varð um 1400 tonn.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?