Hámeri

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Lamna nasus
Danska: Sildehaj
Færeyska: Hemari
Norska: Håbrann
Sænska: Håbrand
Enska: Porbeagle
Þýska: Heringshai
Franska: Taupe
Spænska: Marrajo sardinero
Portúgalska: Tubarão-sardo

Hámerin er straumlínulaga og rennilegur fiskur með stóran keilumyndaðan haus og stutta trjónu. Hún er kjaftstór, með þríhyrndar og oddhvassar tennur sem eru eins í báðum skoltum. Bolur er stuttur og gildur og stirtlan er afturmjó og kilir á hliðum hennar. Bakuggar eru tveir og er sá fremri stór, þríhyrndur og byrjar aftan við tálknaopin ofan við rætur eyrugga. Aftari bakuggi er lítill og er andspænis raufarugga. Eyruggar eru mjög stórir en kviðuggar litlir. Sporðblaðka er mjög stór og næstum hálfmánalaga. Húðtennur eru mjög smáar. Hámerin getur náð 4-6 metra lengd en er oftast um 2-3 m.

Litur: Hámerin er dökk-blágrá eða blásvört að ofan og á hliðum en ljós að neðan. Afturjaðrar bakugga og sporðs eru ljósir.

Heimkynni hámerarinnar eru beggja vegna Norður-Atlantshafs, að austan frá vestanverðu Barentshafi og Múrmanskströnd meðfram vesturströnd Noregs, í Norðursjó og allt suður til norðvestanverðrar Afríku. Í Miðjarðarhafi er hún algeng. Hún er við Bretlandseyjar, Færeyjar og Ísland. Í vestanverðu Norður- Atlantshafi er hún við Ameríku frá Nýfundnalandi og Lárensflóa suður til Nýju-Jersey eða Suður-Karólínu. Hún er í Suður-Atlantshafi frá Suður-Brasilíu til Suður-Argentínu og hún hefur fundist við Suður-Afríku. Í Suður-Kyrrahafi finnst hún við Chile. Þá er hún í Suður-Indlandshafi og einnig við Astralíu og Nýja-Sjáland. Í Norður-Kyrrahafi er önnur tegund, Lamna ditropis.

Við Ísland hefur hámerin fundist allt í kringum landið en hún virðist hvergi vera mjög algeng - að minnsta kosti ekki í seinni tíð.

Lífshættir: Hámerin er úthafsfiskur og heldur sig yfirleitt langt frá landi. Hún flækist víða og er mest uppi í sjó en einnig bregður hún sér niður að botni þegar henni hentar. Hún hefur veiðst frá yfirborði og niður á 700 m dýpi. Hámerin er ágætur sundfiskur og með þeim allra hraðsyndustu. Hún er ýmist stök eða í torfum.

Fæða er mest ýmsir fiskar, t.d. makríll, sardína og sild en einnig þorskur, ýsa, lýsa, keila, lýsingur, gaddháfur og sléttháfur og smokkfiskur.

Hámerin gýtur ungum, oftast fjórum í einu og eru þeir um 50-60 cm langir. Meðgöngutími er um átta mánuðir. Hámerin verður kynþroska fimm ára gömul og um 150 cm löng. Hún getur sennilega orðið að minnsta kosti 30 ára.

Nytjar: Á undanförnum árum hefur hámeri verið mikið veidd víða og alltof mikið. Í Evrópu hafa Norðmenn, Danir, Færeyingar, Bretar, Frakkar og Spánverjar stundað hámeraveiðar. Einnig hafa Japanir veitt hámeri í Indlandshafi. Hún hefur verið veidd á reklínu, í flot- og botnvörpur, handfæri og í net. Hún kemur á markað ný eða þurrkuð og söltuð en einnig fer hún í bræðslu til lýsis- og mjölvinnslu. Hér hafa hámeraveiðar ekki verið stundaðar að neinu ráði. Þó voru stundaðar hámeraveiðar á línu á árunum 1959—1962 á 2,5-4 tonna trillum frá Tálknafirði og Patreksfirði. Þessar veiðar fóru fram undan Látrabjargi, Blakki og Kóp frá því í lok ágúst til loka október. Þá hafa Færeyingar stundað hámeraveiðar hér við land. Á fyrri tímum var roðið af hámerinni notað í skó hér á landi og hryggurinn í göngustafi.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?