Hálfberi mjóri

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Lycodes seminudus
Danska: halvnøgen ålebrosme
Færeyska: spøluti úlvfiskur
Norska: storhodet ålebrosme
Sænska: grå ålbrosme
Enska: longear eelpout

Rák hálfbera mjóra er miðlæg og greinileg. Hreistur er smátt og nær aðeins yfir aftari hluta fisksins aftan raufar. Bak- og raufaruggi eru hreisturlausir. Fyrir utan þetta hreisturleysi þá er hausinn einkennandi, allstór, 25-29% af lengd að sporði, flatur og framlækkandi. Fjarlægð frá trjónu að rauf er 44,6-55,6% af lengd að sporði. Hér við land hefur hálfberi mjóri mælst lengstur 70 cm og veiddist hann í júlí 1973 á Norðvesturmiðum (67°24'N, 23° 18'V). Annars verður hann sjaldan stærri en 50-60 cm.

Litur er breytilegur, oft ljós til dökkgrár eða brúnn með fimm til átta fölleitar þverrendur á baki og ýmist með ljósa rönd á hnakka eða ekki. Einnig getur liturinn verið dökkbrúnn og án randa, bláleitur og allt að því svartur, stundum með ljósum kviði (Lycoies seminudus nigricans, sjá hér á eftir).

Geislar: B, 87-90; R, (69)72-73; E: 19- 21; hryggjarliðir: 96-97.

Heimkynni hálfbera mjóra eru við Vestur- og Austur-Grænland, við Ísland til Færeyja, í Barentshafi, við Svalbarða, í Karahafi og í Beauforthafi.

Hér varð hálfbera mjóra fyrst vart árið 1924 á 420-440 m dýpi í Eyjafjarðarál, 43 sjómílur norður af Siglunesi. Síðan hefur hann veiðst allvíða í köldum sjó undan Norðvestur-, Norður-, Norðaustur- og Austurlandi.

Lífshættir: Hálfberi mjóri er kaldsjávarfiskur á leirbotni á 130-1400 m dýpi í kaldari sjó en 0°C. Um hrygningu er lítið vitað. Fæða er smákrabbadýr, rækja, burstaormar og fiskar.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?