Græni marhnútur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Taurulus bubalis
Danska: Langtornet Ulk
Færeyska: Grønakrutt
Norska: Dvergulk
Sænska: Oxsimpa
Enska: Sea scorpion, Bullhead
Þýska: Seebull
Franska: Chabot buffle
Spænska: Cabrachito
Portúgalska: Escorpião-roco
Rússneska: Бычок-буйвол / Bytsjók-bújvol

Græni marhnútur er fremur smávaxin marhnútategund með stóran og breiðan haus. Gaddar eru á vangabeini, sá efsti mjög stór og nær aftur fyrir tálknalok og aftur fyrir fremri rætur fremri bakugga. Aftaní kjaftvikum er lítill flipi eða skeggþráður. Bolur er stuttur og stirtla mjókkar hratt aftur eftir.  Bakuggar eru tveir, vel aðgreindir og er sá aftari lengri. Raufaruggi andspænis aftari bakugga, en örlítið styttri. Sporður er allstór. Eyruggar eru mjög stórir og breiðir. Kviðuggar eru langir. Hængar eru með lim. Græni marhnútur líkist nokkuð marhnúti, en er auðgreindur frá honum á stærð stærsta gaddsins á vangabeini og því að marhnútur er ekki með skeggþræði við kjaftvikin. Græni marhnútur getur orðið allt að 18 cm langur.

Litur er mjög breytilegur eftir umhverfi, oft ólífubrúnn á baki og hliðum með fjórum dökkum þverböndum og gulleitur að neðan. Einnig getur litur á baki verið rauðleitur eða dökkbrúnn, allt eftir því hvað hentar best sem felulitur. Um hrygningartímann verður kviður hænganna appelsínugulur með ljósbláum blettum og kviðuggar verða ljósbláir með dökkum blettum.

Heimkynni græna marhnúts eru frá vestanverðu Miðjarðarhafi um Njörvasund norður með Portúgal, Spáni og Frakklandi til Bretlandseyja og þaðan um Norðursjó til Danmerkur og Skandinavíu og inn í Eystrasalt. Einnig við Færeyjar og Ísland sunnan- og vestanvert. Danskir fiskifræðingar töldu sig finna svifseiði græna marhnúts við suður- og suðvesturströnd Íslands frá Ingólfshöfða til Látrabjargs í byrjun 20. aldar, og vitnar Bjarni Sæmundsson til þess í bók sinni Fiskarnir (1926). Seinna, þegar Bjarni skrifar Marine Fishes (útgefið 1949) er hann þeirrar skoðunar að þarna hafi verið um að ræða seiði litla marhnúts (Micrenophrys lilljeboriji). Um miðjan febrúar 2006 fannst fullorðinn hængur í fjörupolli á Seltjarnarnesi og síðan hafa nokkrir fundist til viðbótar.

Lífshættir. Grunnsævisfiskur á hörðum botni sem heldur sig einkum í fjörupollum og í þangbeltinu allt niður á 30 m dýpi.

Fæða er botnlæg krabbadýr og smáfiskar.

Hrygning. Við strendur meginlands Evrópu hrygnir græni marhnútur í febrúar-maí.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?