Glókollur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Cetostoma regani
Enska: Pink flabby whalefish

Glókollur er langvaxinn og þunnvaxinn fiskur. Mesta hæð er við fremri rætur raufarugga. Haus er í meðallagi stór og þunnvaxinn. Línan frá trjónu aftur á hnakka er íhvolf. Nasaop, sem eru illa farin og skemmd á flestum þeim fiskum sem fundist hafa, eru aðeins nær trjónuenda en augum. Fremri nasaop eru minni en þau aftari. Augu eru örsmá. Skoltar eru stórir og ná aftur fyrir miðjan haus. Tennur á skoltum eru örsmáar og þríhyrndar. Tennur á plógbeini eru svipaðar skoltatönnum í lögun en smærri og næstum því ógreinanlegar í stórum fiskum. Tennur á gómbeinum eru minni en skoltatennur en stærri en plógbeinstennur. Bak- og raufaruggi eru langir, háir og standa á nokkurs konar fæti. Bakuggi er lengri en raufaruggi. Lengd bak- og raufarugga þessarar ættkvíslar og fjöldi uggageisla er meiri en á fiskum annarra ættkvísla þessarar ættar. Sporður er vel þroskaður. Eyruggar eru lagstæðir og frekar smáir og kviðugga vantar. Eftir kviði frá eyruggum að fremstu geislum raufarugga eru samsíða húðrendur eða fellingar. Rák er breið og holótt og nær frá sporði fram á haus og á haus er greinilegt rákarkerfi. Glókollur verður um 25 cm a lengd.

Litur: Glókollur er rauð- eða appelsínugulur á lit á haus, bolur er svartur en stöku uggarnir eru með skærrauðum jöðrum. Hold er rauðleitt eða appelsínugult og virðist fiskurinn vera þannig á litinn við fyrstu sýn því að roð flettist auðveldlega af við að þvælast í veiðarfærum.

Geislar: B: 29-37,- R: 26-34,- hryggjarliðir: 47-53.

Heimkynni: Glókollur hefur fundist í öllum heimshöfum. Aðalútbreiðslusvæðið í Atlantshafi er á milli 50°N og 40°S, í Kyrrahafi frá 42°N til 15°S og í Indlandshafi frá 3°N til 30°S.

Í apríl árið 1995 fannst afturhluti fisks af þessari tegund á grálúðuslóð vestan Víkuráls og í maí 1996 veiddist 20 cm fiskur sömu tegundar á svipuðum slóðum. Þá veiddist einn í flotvörpu á meira en 150 m dýpi í júlí 2001 djúpt suður af Hvarfi (54°46'N, 42°03'V). Hann var lengri en 15 cm en hausinn vantaði.

Lífshættir: Glókollur er úthafs-, miðsævis-, og djúpfiskur sem veiðst hefur á 650- 2250 m dýpi. Fæða er m.a. Ijósáta og fleiri smákrabbadýr.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?