Geirnyt

Samheiti á íslensku:
rottufiskur
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Chimaera monstrosa
Danska: havmus, sømus
Færeyska: havmús
Norska: gullhå, hågylling, havmus
Sænska: havsmus
Enska: Rabbit fish
Þýska: Seekatze, Seeratte, Spöke
Franska: chimère commun
Spænska: quimera
Portúgalska: quimera, ratazana, rato-do-mar
Rússneska: Химера / Khiméra

Geirnytin er hausstór og trjónustutt með lítinn kjaft neðan á miðjum haus og sérkennilega samvaxnar tennur. Augu eru allstór. Hún er gildust að framan en fer afturmjókkandi og endar í löngum og mjóum halaþræði sem gengur aftur úr sporðblöðkunni. Bakuggar eru tveir og aðgreindir, sá fremri er hár og þríhyrndur með hvassan gadd fremst. Aftari bakuggi er langur og lágur sem og raufaruggi. Eyruggar eru mjög stórir.

Á enni hænganna er angi með broddóttum hnúð á enda sem sennilega gegnir einhverju hlutverki við eðlunina. Þá hefur hængurinn sérkennilegan Iim sem gengur aftur úr kviðuggum og er þrískiptur. Roðið er slétt og hreisturlaust. Rákin er greinileg frá hala og fram á haus þar sem hún skiptist í margar greinar. Geirnytin getur orðið 120 cm löng eða Iengri en er oftast 70-95 cm. Hrygnur eru miklu stærri en hængar. Lengsta geirnyt á Íslandsmiðum mældist 110 cm og veiddist í mars 1993 á Reykjaneshrygg (61°54'N, 26°19'V) og önnur jafnlöng í júlí 1995 suð- vestur af Reykjanesi (63°09'N, 24°39'V).

Litur: Geirnytin er brúnleit að ofan, silfurgrá eða bronsbrún á hliðum og hvít að neðan.

Heimkynni: Geirnyt er að finna í norðaustanverðu Atlantshafi, frá Finnmörku og meðfram Noregi suður í norðanverðan Norðursjó, vestan Bretlandseyja, við Færeyjar og Ísland. Þá er hún í Biskajaflóa, við Spán og Portúgal og inn í Miðjarðarhaf og suður til Marokkós og Asóreyja.

Við Ísland hefur geirnyt fundist við suðaustur-, suður- og suðvesturströndina, frá djúpmiðum suðaustanlands vestur til Breiðafjarðar, og er hún algeng vestur og suðvestur af Reykjanesi.

Lífshættir: Geirnytin er botnfiskur og hefur fundist á 40-1250 m dýpi, en er algengust á 300-500 m. Fæða er einkum botnlægir hryggleysingjar, m.a. ýmiss konar skeldýr, krabbadýr og burstaormar. Einnig sæfíflar, einkum hjá fullorðnum fiskum.

Geirnytin gýtur tveimur eggjum (pétursskipum) sem eru um 17 cm löng, ílöng og gildari í annan endann en oddmjó í hinn og Iíkjast þau fiski í útliti fljótt á Iitið. Slík pétursskip hafa m.a. fundist hér við land suður og suðvestur af Reykjanesi.

Nytjar: Til þessa hefur nytsemi af geirnyt verið nær engin enda var hún Iengi talin vera eitruð. Það er þó sennilega eitthvað orðum aukið nema e.t.v. innyfli og lifur sem eru mjög feit. Reynt hefur verið að hirða geirnyt enda veiðist oft talsvert af henni. Hefur verið reynt að koma henni í verð á mörkuðum erlendis, t.d. í Frakklandi og er hún talin sæmilega æt hvað sem fyrri fordómum líður.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?