makrílsbróðir (íslenska)

Geirnefur

Samheiti á íslensku:
makrílsbróðir
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Scomberesox saurus
Danska: makrelgedde
Færeyska: makrelgedda
Norska: makrellgjedde
Sænska: makrilgädda
Enska: Atlantic saury
Þýska: Makrelenhecht
Franska: balaou, balaou de l'Atlantique
Spænska: gendarme, paparda del Atlántico
Portúgalska: agulhão, marabumbo
Rússneska: Kárlikovaja sájra

Geirnefur er langvaxinn, mjór og þunnvaxinn fiskur. Haus er breiður að ofan og langur því skoltar teygjast fram í langa og mjóa trjónu og er neðri skoltur aðeins lengri en sá efri. Á seiðunum eru skoltar næstum jafnlangir þar til þau eru orðin um 4 cm á lengd en þá lengist neðri skoltur mikið en síðan jafnast þeir aftur. Tennur eru smáar, miklu smærri en í hornfiski. Augu eru allstór. Bolur er langur en stirtla stutt og mjókkar aftur. Bak- og raufaruggar eru frekar litlir og andspænis hvor öðrum og aftarlega. Aftan hvors þeirra eru sex til sjö smáuggar. Sporður er af meðalstærð, sýldur og hvasshyrndur. Eyruggar eru meðalstórir og kviðuggar, sem eru rétt aftan við miðju, eru vel þroskaðir. Hreistur er smátt og laust. Rák er kviðlæg og greinileg. Geirnefur er oftast 25-35 cm en getur orðið um 50 cm.

Litur er blágrænn á baki en hliðar og kviður eru silfurgljáandi. Á hliðarhreistri er blár blær.

Geislar: B: 10-12,- R: 12-14,-hryggjarliðir: 64-70.

Heimkynni geirnefs eru í Miðjarðarhafi og beggja vegna Atlantshafs frá Noregi og Vestur-Evrópu og Norður-Afríku að austan yfir til Ameríku frá Nýfundnalandi suður til Brasilíu að vestan. Flækingar koma stundum til Íslandsmiða.

Hér hefur geirnefur fundist alloft rekinn á fjörur allt frá Stöðvarfirði suður fyrir land og norður fyrir Akranes á tímabilinu júlí til október en þó oftast í ágúst og september. Einnig hefur hann komið í veiðarfæri. Þá skolaði alda fimm geirnefum um borð í hvalveiðiskip á siglingu djúpt suðvestur af Reykjanesi í september árið 1983. Það ár var óvenjumikið um geirnef á Íslandsmiðum.

Lífshættir: Geirnefur er úthafs- og uppsjávarfiskur og á hann það til að stökkva upp úr sjónum, eins og flugfiskar, á flótta undan óvinum sínum. Hann gengur oft um í stórum torfum.

Fæða er Ijósáta og önnur sviflæg krabbadýr og smáfiskar. Sjálfur verður hann stærri fiskum, m.a. túnfiski, að bráð.

Hrygning fer Iíklega fram í úthafinu, m.a. sunnan Bretlandseyja. Egg eru sviflæg með fínum þráðum og berast víða um sjó.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?