Gaffalkrabbi

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Scyramathia carpenteri
Enska: Deepwater spider crab

Áður bar gaffalkrabbi vísindaheitin “Rochinia carpenteri” og “Amathia carpenteri”. Gaffalkrabbi er, ásamt trjónukrabba og litla trjónukrabba, innan ættar Epialtidae.

Útlit

Gaffalkrabbi einkennist af lögun skjaldarnefs (rostrum) sem er klofið og myndar gaffal eða kvísl, en af því dregur hann íslenska nafn sitt. Á skildinum eru hnúðar og úr honum ganga gaddar sitt hvoru megin. Skjöldurinn er þakinn smáum hárum sem eru mest áberandi á trjónunni innanverðri. Krabbinn er með langa, granna fætur og lítinn skjöld miðað við útlimi. Klóin er breytileg að stærð og getur verið skörðótt. Litur er almennt rauður. Skjaldarstærð gaffalkrabba er almennt um 22x16 mm (kk) eða 13x8 mm (kvk) en þeir geta orðið töluvert stærri.

Útbreiðsla

Gaffalkrabbi finnst aðallega í djúpsjó, bæði á hörðum og setkenndum botni. Gaffalkrabbi finnst í N-Atlantshafi, við Evrópu og jafnvel á dýpri svæðum undan Vestur-Afríku. Gaffalkrabbi er þekktur við Bretlandseyjar, Færeyjar, við suðurhluta Noregs og sunnan Íslands. Á Íslandi hefur gaffalkrabbi veiðst á 270 metra dýpi í botnvörpu sunnan lands, og virðist algengari á hafsvæðinu við Vestmannaeyjar. Sunnan Færeyja hefur gaffalkrabbi veiðst á yfir 1200 m dýpi. Gaffalkrabbi hefur ekki fundist í Miðjarðarhafi né við Asóreyjar, en þar finnst tegundin Scyramathia tenuipes sem er náskyld.

Lífshættir

Gaffalkrabbinn lifir á 100-1300 m dýpi en lítið er vitað um lífshætti hans. Lirfustig gaffalkrabba hefur einkennandi gadda á líkama og fótleggjum sem gera lirfunni kleyft að festast sig í grófu eða greinóttu umhverfi.

Nytjar

Engar þekktar nytjar.

Heimildir/ ítarefni

Sólmundur T. Einarsson. 1976. Náttúrufræðingurinn. Tvær nýjar krabbategundir (Decapoda) við Ísland.

Nákvæm tegundalýsing og flokkunarfræði: Lee, B. Y., Richer De Forges, B., & Ng, P. K. L. (2020). Revision of the deep-water spider crab genus, Scyramathia A. Milne-Edwards, 1880, with the description of a new species from the Mediterranean and notes on Rochinia A. Milne-Edwards, 1875, and Anamathia Smith, 1885 (Crustacea, Decapoda, Brachyura, Epialtidae). Zoosystematics and Evolution (96, Issue 2, 537–569). https://doi.org/10.3897/zse.96.48041

Þroskun og einkenni lirfustigs: Tomás A. Luppi & Eduardo D. Spivak (2016): The larval development of the spider crab Rochinia gracilipes (Crustacea: Majoidea: Epialtidae: Pisinae) reared in the laboratory, Journal of Natural History. http://dx.doi.org/10.1080/00222933.2016.1190415

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?