Gaddarækja

Mynd: IMARES, WoRMS Gaddarækja
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Pontophilus spinosus

Einkenni: Gaddarækja er af ætt rækja Caridea. Hún er rauðbrún að lit, oft með ljósgrænar skellur á skildinum og telson. Spjótið nær jafn langt fram og augun. Á skildinum eru þrír miðlægir gaddar sem vísa fram, en sitthvoru megin við þá eru tvær raðir af göddum; ein með þrem göddum og önnur nær kvið með tveim göddum. Mesta heildarlengd sem mælst hefur er 5,2 cm (de Kluijver og Ingalsuo, 2018).

Útbreiðsla: Gaddarækja finnst í Austur‐ og Norðaustur‐Atlantshafi og í Miðjarðarhafi eða frá 73°N suður að 30°N og frá 16°W að 30°E. Við Ísland hefur gaddarækja aðeins verið greind tvisvar úr trolli, djúpt norður af landinu í júlí 2009. Hún kom í trollið á 339 m og 396 m dýpi við ‐0,5 og ‐0,1 °C.

Fundarstaðir gaddarækju við Ísland. Hún fannst eingöngu í trolli. Línurnar sýna 200, 500 og 1000 m dýptarlínur.

Lífshættir: Gaddarækja hefur fundist dýptarbilinu 20 – 1550 m, en heldur sig þó aðallega á 200 – 400 m dýpi (Adda‐Hanifi, 2007) og finnst gjarnan á grófum sandbotni (de Kluijver og Ingalsuo, 2018). Hún er botnlæg og étur af botninum, en er hreyfanleg og finnst líka í uppsjónum (Abelló, Valladares og Castellón, 1988).

Nytjar: Gaddarækja er ekki nytjuð.

Heimild: https://www.hafogvatn.is/is/midlun/utgafa/haf-og-vatnarannsoknir/raekjutegundir-vid-island

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?