Fjólumóri

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Antimora rostrata
Danska: blå antimora
Færeyska: rottutrónur
Sænska: blå antimora
Enska: blue hake, flat-nose codling, blue antimora
Franska: antimore bleu
Spænska: Mollera azul
Portúgalska: mora-azul
Rússneska: Antimóra

Fjólumóri er langvaxinn fiskur með framteygða þrístrenda trjónu. Trjónan er með kjöl á hliðum sem nær út yfir kjaftinn. Haus er fremur stuttur og breiður að aftan. Augu eru stór. Kjaftur er víður og ná skoltar aftur undir aftari hluta augna. Tennur eru í báðum skoltum í þéttum röðum og skaflar af tönnum eru á plógbeini. Nasir eru þéttstæðar og eru þær aftari víðar og hálf-kringlulaga en þær fremri þrengri og kringlóttar. Rauf er nær enda tálknaloka en sporðblöðkurótum. Fjólumóri er allur þakinn sléttu hreistri, einnig tálknalok og trjóna. Bakuggar eru tveir, samvaxnir. Sá fremri er stuttur og teygist fremsti geisli hans aftur í langan þráð sem er álíka langur og hauslengdin. Aftari bakuggi er langur og frekar lágur. Raufaruggi er svo djúpskiptur í miðju að hann líkist tveimur uggum. Spyrðustæði er mjög grannt og sporðblaka lítil og örlítið sýld. Eyruggar eru vel þroskaðir, oddhvassir og efri geislar langir. Tveir ystu geislar kviðugga eru langir og teygjast aftur í þráð sem nær aftur undir eða fyrir miðja eyrugga.

Fjólumóri getur orðið 75 cm eða lengri. Í júní 1990 veiddist einn 68 cm á grálúðuslóð vestan Víkuráls.

Litur: Fjólumóri er fjólublár, blár eða svartleitur á lit.

Geislar: B1: 4-7; B2: 48-56;- R: 36-49;- hryggjarliðir: 57-61.

Heimkynni: Fjólumóri hefur fundist í öllum heimshöfum. Í norðaustanverðu Atlantshafi er hann frá djúpmiðum undan Austur- Grænlandi, vestan-, suðvestan-, sunnan- og suðaustan íslands (flækingar hafa fundist undan Austfjörðum og Norðurlandi) og suður fyrir Írland. Hans hefur orðið vart við Gíbraltar. Í Norðvestur-Atlantshafi er fjólumóri frá Flórída norður til Labrador og Suðvestur-Grænlands. I vestanverðu Suður-Atlantshafi er hann undan ströndum Suður-Brasilíu, Úrúgvæ og Argentínu, í austanverðu Suður- Atlantshafi undan Angóla og Suður-Afríku. Í Indlandshafi við Madagaskar. Þá er hann sunnan og suðvestan Ástralíu og við Nýja- Sjáland. Í austanverðu Suður-Kyrrahafi er hann meðfram endilangri Suður-Ameríku frá Panama til Suður-Chile. Í Norður-Kyrrahafi frá Mexíkó norður til Beringshafs. Við Kamtsjatka og til Japans er önnur tegund sömu ættkvíslar Antimora microlepis.

Hér fannst fjólumóri fyrst í Ingólfsleiðangrinum 1895-1896 á 1866 m dýpi djúpt undan Suðausturlandi (62°49'N, 15°07'V). Síðan hafa margir veiðst allt frá grálúðuslóð vestan Víkuráls og suður fyrir land til suðausturmiða og einn veiddist á 173-193 m dýpi undan Austurlandi (65°48'N, 11°56'V) í október árið 2000. Þá veiddist einn, 63 cm langur, í mars 2003 á 366 m dýpi norðaustan Grímseyjar (66°34'N, 17°55'V) og mun það vera nyrsti fundur tegundarinnar til þessa.

Lífshættir: Fjólumóri er miðsævis-, botn- og djúpfiskur sem veiðst hefur á 350—3000 m dýpi. Stórir og gamlir fiskar eru dýpra en ungir fiskar.

Fæða er fiskar, bæði botnlægir og sviflægir, og einnig hryggleysingjar eins og krabbadýr og smokkfiskar.

Um hrygningu og vöxt er lítið vitað þótt tegundin sé víða allalgeng.

Nytjar: Nytsemi er engin en stakir fiskar veiðast oft sem aukaafli við tog- og línuveiðar á djúpslóð.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?