Fenrislaxsíld

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Lampanyctus crocodilus
Danska: krokodille-prikfisk
Norska: kjempelysprikkfisk
Enska: Jewel lanternfish

Fenrislaxsíld er langvaxin og þunnvaxin. Hausinn er í meðallagi stór, kjaftur stór og ná skoltar langt aftur fyrir augu. Augun eru allstór en tennur hins vegar smáar. Raufaruggi er lengri en bakuggi og byrjar undir eða rétt framan við aftari rætur bakugga. Lítill veiðiuggi er aftan við bakugga andspænis aftari rótum raufarugga. Eyruggar eru mjög langir, ná aftur undir eða að rauf. Kviðuggar eru af meðalstærð og eru undir miðjum eyruggum.

Ljósfæri eru neðriskoltsljós, þrjú ljósfæri á kinn, fjögur brjóstljós og það fjórða upphækkað, fjögur raufarljós, raufaruggaljós, átta stirtluljós, fjögur spyrðuljós, þrjú ofanraufarljós, tvö hliðarljós. Hliðarljós og spyrðuljós eru við rákina. Eftir endilöngu spyrðustæði eru hreisturlaga ljóskirtlar, einnig að ofan framan við sporð. Á framanverðum veiðiugga er ljóskirtill. Fenrislaxsíld er allt að 30 cm.

Geislar: B, 13-15; R: 16-19.

Heimkynni fenrislaxsíldar eru í Miðjarðarhafi og beggja vegna í Norður-Atlantshafi milli 22° og 51°N en hún flækist alloft norður til Íslands- og Grænlandsmiða.

Hér hefur þessi tegund veiðst undan Suðvestur-, Vestur- og Norðvesturlandi og á Dohrnbanka og virðist víða vera meira um hana en talið hefur verið.

Lífshættir: Fenrislaxsíld er úthafs- og miðsævisfiskur sem veiðst hefur niður á 1000 m dýpi. Um fæðu og hrygningu er lítið vitað.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?