Faxaskeggur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Flagellostomias boureei
Enska: Longbarb dragonfish

Faxaskeggur er langvaxinn og grannvaxinn fiskur. Haus er ávalur fyrir endann og skoltar eru jafnlangir. Niður úr neðri skolti gengur langur hökuþráður - lengd hans er um helmingur til þrír fjórðu af lengd fisksins að sporði. Á enda hökuþráðar er lítil kúla og margir smáir þræðir. Kjaftur er stór. Á skoltum eru vígalegar tennur og skagar fremsta tönn neðri skolts upp fyrir efri skolt og næstfremsta tönn efri skolts nær niður fyrir neðri skolt. Augu eru allstór og aftan þeirra er smátt kringlótt ljósfæri sem er um fjórðungur af þvermáli augna eða minna. Kviðlæg röð ljósfæra nær frá haus aftur að sporði. Fjöldi þeirra frá eyruggarotum að rótum kviðugga er 31-34. Önnur röð ljósfæra er ofar og samsíða og nær að raufarugga. Engin Ijósfæri eru framan við augu né neðan þeirra. Bak- og raufaruggar eru mjög aftarlega, rétt framan við litla og sýlda sporðblöðku og andspænis hvor öðrum. Raufaruggi er þó mun lengri bæði fram og aftur. Fremsti geisli eyrugga er laus við uggann og mjög langur með smáa kúlu og þráð á endanum. Kviðuggar eru allstórir og aftan við miðjan fisk. Faxaskeggur verður um 30-40 cm á lengd.

Litur: Faxaskeggur er svartur eða mjög dökkbrúnn á lit.

Geislar: B, 14—17; R, 21—26.

Heimkynni faxaskeggs eru í öllum heimshöfum. Í Atlantshafi hefur hann veiðst allt frá Íslandsmiðum og suður til 40°S. Hann er þó ekki í Norðursjó né á milli Íslands og Noregs, né í Miðjarðarhafi. Í vestanverðu Atlantshafi finnst hann norðan 10°N og sunnan 20°S.

Í aprílmánuði árið 1995 veiddist 18 cm (mældur að sporði) faxaskeggur á 420 m dýpi í Faxadjúpi (63° 17'N, 25°28'V) í júlí 1999 veiddust tveir, 11 og 18 cm langir, á 500-800 m dýpi djúpt suðvestur af Reykjanesi (62°30'N, 28°25V) og einn, 23,5 cm langur, veiddist í sama mánuði á 550—780 m dýpi í Grænlandshafi djúpt vestur af Garðskaga (64°0 1 'N, 30°26V) auk þess sem einn, 19,5 cm langur, veiddist um svipað leyti á 550—770 m dýpi rétt utan 200 sjómílna fiskveiðilögsögunnar suðvestur af Reykjanesi (63° 14'N, 3 3°49'V).

Lífshættir: Faxaskeggur er miðsævis- og djúpfiskur sem heldur sig oftast á meira dýpi en 500 m á daginn.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?