Ennisfiskur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Caristius fasciatus
Danska: Opal mankefisk
Færeyska: ennifiskur
Enska: Greenland manefish

Ennisfiskur er hávaxinn og þunnvaxinn fiskur með mjög hátt og þvert enni. Kjaftur er lítill, efri skoltur nær aftur á móts við aftari jaðar augna. Á skoltum, gómbeinum og plógbeini er röð af smáum oddhvössum tönnum sem vísa aftur. Augu eru stór. Bakuggi er mjög langur og hár. Langir kviðuggar eru framan við eyrugga. Rák er nokkuð greinileg og liggur mjög ofarlega, er hástæð. Ennisfiskur verður meira en 60 cm en hér er sá lengsti til þessa 38 cm.

Litur er dökk-purpurabrúnn, Ijós á haus en himna á milli ugga er svört. Tálknalok er dökk-fjólublátt.

Geislar: B: 28-31;- R: 17-19.

Heimkynni ennisfisks eru í Norðaustur- Atlantshafi frá Íslandsmiðum og e.t.v. suður til Madeira. Hans hefur tvisvar orðið vart við Grænland (í Davissundi og undan Suðaustur-Grænlandi).

Við Grænland er tegund sömu ættar, Platyberyx groenlandicus, og hefur hún einnig fundist á Nýfundnalandsmiðum, í Suður- Atlantshafi við Namibíu og undan Durban í Suður-Afríku og Bresku-Kólumbíu Kyrrahafsmegin undan Kanada.

Á Íslandsmiðum fannst ennisfiskur fyrst í apríl árið 1978 undan Suðurlandi og annar veiddist á 110 m dýpi suðvestur af Ingólfshöfða í júní árið 1979 og mældist hann 22 cm langur. Frá 1981 hefur hans orðið vart nær árlega, eins eða fleiri, á svæðinu frá Grindavík vestur og norður með landi allt til Kolbeinseyjar. Flestir hafa þeir veiðst undan Suðvesturlandi. Auk þess hafa nokkrir veiðst utan 200 sjómílna markanna suðvestur af Reykjanesi. Fiskar þessir hafa verið 11-38 cm langir og veiðst ýmist í flot- eða botnvörpur.

Lífshættir: Lítið er vitað um lífshætti ennisfisks. Hann mun vera úthafs- og miðsævisfiskur og hefur fundist á 92-1270 m dýpi.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?