Dökksilfri

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Diretmichthys parini
Enska: Black discfish, Parin´s spiny fish
Franska: Grand dirette

Dökksilfri er hávaxinn, þunnvaxinn og sporöskjulaga fiskur með stór augu og stóran skásettan kjaft. Uggar eru allir vel þroskaðir. Bakuggi er lengri en raufaruggi. Kviðuggar eru undir eyruggum og sporður er djúpsýldur. Engir gaddar eru í bak- og raufarugga. Hreistur er kambhreistur og er rák ekki greinanleg. Stærsti dökksilfrinn hér við land mældist 42 cm og veiddist djúpt suðvestur af Reykjanesi snemma í apríl árið 2003.

Litur er mjög dökkur, næstum svartur, með bláleitri slikju.

Seiði og ungir fiskar eru talsvert frábrugðin fullorðnum fiskum í útliti. Seiði eru með gadd upp úr hnakka og annan styttri niður úr kinnbeini. Ungir fiskar eru gaddalausir eins og fullorðnir fiskar en ekki alveg eins langvaxnir. Þá er litur seiða og ungfiska silfraður og á ungfiskum er skeifulaga dökkur flekkur á hvorri hlið.

Geislar: B, 26-29; R, 20-23; hryggjarliðir: 29-31.

Heimkynni dökksilfra eru víða í heimshöfunum, m.a. í austan- og vestanverðu Atlantshafi, Karíbahafi, Indlands- og Kyrrahafi, Kínahafi og undan austurströnd Ástralíu. Í Norðaustur-Atlantshafi hefur hans orðið vart við Írland, Asóreyjar, Madeira og undan Marokkó, auk þess sem hann hefur nokkrum sinnum veiðst á Íslandsmiðum.

Hér fannst dökksilfri í apríl árið 1992 á 220-238 m dýpi í Litladjúpi austan við Hvalbak. Sá fiskur mældist 39 cm langur.

Síðan hafa veiðst næstum árlega einn eða fleiri dökksilfrar, 20-42 cm langir, á svæðinu frá Rósagarði undan Suðausturlandi og vestur með Suðurlandi allt norður á grálúðuslóð vestan Víkuráls. Árið 1994 veiddust a.m.k. sjö á Íslandsmiðum frá norðvesturmiðum til miðanna undan Suðurlandi á móts við Vestmannaeyjar. Þeir voru 23-26 cm langir og veiddust flestir í flotvörpu á 500-1 l 00 m dýpi. Árið 2005 veiddust fimm dökksilfrar, 27-40 cm langir, allt frá Íslands-Færeyjahrygg og Hvalbakshalla vestur til Grindavíkurdjúps, Reykjaneshryggs og vestur fyrir Víkurál. Einn veiddist 2006 á Þórsbanka og fjórir 33-37 cm árið 2009 á 550-1000 m dýpi undan Suður-, Suðvestur- og Vesturlandi.

Lífshættir: Dökksilfri er miðsævisfiskur sem veiðst hefur á um 200-1100 m dýpi hér við land en hefur veiðst allt niður á 2000 m dýpi. Fæða er svifdýr. Hrygning fer fram allt árið í heittempruðum og heitum höfum. Í janúar árið 2004 veiddist 41 cm dökksilfri á 458-732 m dýpi djúpt suður af Surtsey (63°04'N, 20°44'V) og var hann hrygnandi í um 6°C heitum sjó.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?