Dökki sogfiskur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Liparis fabricii
Danska: Fabricius ringbug
Færeyska: dokki súgfiskur
Norska: polarringbuk
Enska: Gelatinous snailfish
Franska: limace gélatineuse

Dökki sogfiskur er Iítill fiskur, þunnvaxinn og hausstór. Kjaftur er í meðallagi stór, nær aftur á móts við mið augu, endastæður eða örlítið undirmynntur. Augu eru stór. Trjóna er Iítil og enni er kúpt. Fremri nasir eru pípulaga . Bakuggi nær frá hnakka og aftur á miðja sporðblöðku sem er Iítil og bogadregin fyrir endann. Raufaruggi nær einnig út á sporðblöðku. Eyruggar eru mjög stórir og ná aftur fyrir rauf. Kviðuggar eru ummyndaðir í sogflögu. Roð er þunnt og losaralegt. Á Íslandsmiðum hefur veiðst 27 cm fiskur. Hann virðist ekki ná þeirri lengd annars staðar.

Litur: Dökki sogfiskur er dökkgrár á lit en lífhimna svört.

Geislar: B: (43)45-52(54); R: 37-41; hryggjarliðir: 50-51.

Heimkynni dökka sogfisks eru í Norður- Íshafi, Barentshafi, við Svalbarða, í Hvítahafi, þar sem hann er algengur og norðan Síberíu. Þá er hann í kalda sjónum við Ísland, Austur- og Vestur-Grænland við Baffinsland suður til Labrador og Stórabanka við Nýfundnaland og norðan Kanada og Alaska.

Hér við land hefur dökki sogfiskur veiðst allt frá árinu 1964, mest á djúpmiðum á svæðinu frá Dohrnbanka norður og austur fyrir land til Austfjarðamiða. Einnig hefur hann veiðst á grunnslóð fyrir Norðurlandi, mest á 130-200 m dýpi, frá Ísafjarðardjúpi, um Strandagrunn allt austur á Öxarfjörð. Sá stærsti sem veiðst hefur hér við land veiddist inni á Jökulfjörðum árið 1973 og mældist 27 cm langur.

Lífshættir: Dökki sogfiskur er botn- og e.t.v. miðsævisfiskur sem veiðst hefur á 20- 750 m dýpi en er sennilega einna algengastur á 100-300 m dýpi.

Fæða er einkum ýmis smákrabbadýr, bæði sviflæg og botnlæg, auk burstaorma.

Hrygning fer fram í september til október í Barentshafi og eru egg 2,1-1,7 mm í þvermál. Ekkert er vitað um hrygningu hér við land.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?