Djúphafssogfiskur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Paraliparis copei
Danska: Copes dyphavsringbug
Enska: Blacksnout seasnail
Rússneska: Паралипарис группы copei / Paralipáris grúppy copei

Djúphafssogfiskur er þunnvaxinn og afturmjókkandi fiskur. Haus og augu eru allstór. Kjaftur er örlítið skástæður og nær aftur á móts við mið augu. Undir augum og aftan við þau og á neðri skolti eru smáop. Bakuggi er langur, nær frá hnakka og út á sporðblöðku sem vottar örlítið fyrir. Raufar- uggi er einnig langur þó styttri sé en bakuggi og nær hann líka út á sporðblöðku. Eyruggar eru stórir og neðri hluti þeirra þrír til fjórir geislar. Engin sogskál er á kviði frekar en á öðrum fiskum þessarar ættkvíslar sogfiska. Djúphafssogfiskur getur náð 25 cm lengd.

Litur: Djúphafssogfiskur er svartur eða blásvartur á lit á haus, grönum og kviði en kroppur er ljós og hálfgegnsær. Hann er dökkleitur við sporð.

Heimkynni djúphafssogfisks eru í norðvestanverðu Atlantshafi frá Hatterashöfða í Norður-Karólínuríki í Bandaríkjunum norður til miðanna við Suðvestur-Grænland. Þá hefur hans orðið vart við Asóreyjar og á Íslandsmiðum. Í maílok árið 1992 veiddist einn fiskur þessarar tegundar í botnvörpu á 1075—1150 m dýpi á grálúðuslóð vestan Víkuráls (64°44'N, 28°07'V) og annar í byrjun júní á 530-570 m dýpi norður af Hornbanka (67°36'N, 20C51'V). Þeir voru 15 og 18 cm langir. Árið 1994 veiddist einn, 10 cm langur, í botnvörpu á svipuðum slóðum og í júlí og ágúst árið 1996 veiddust tveir í rækjuvörpu á 526-600 m dýpi í Eyjafjarðarál. Þeir voru 7 og 16 cm langir.

Lífshættir: Þetta er djúphafs-, miðsævis- og botnfiskur sem veiðst hefur á 450-2000 m dýpi.

Fæða er ýmis smá krabbadýr og fleiri hryggleysingjar.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?