Djúpáll

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Synaphobranchus kaupii
Danska: spidssnudet dyphavsål
Færeyska: djúpállur
Enska: Cutthroat eel, Kaup's arrowtooth eel
Franska: anguille égorgée de Gray
Rússneska: moreão-de-natura

Djúpáll er langvaxinn fiskur, í meðallagi þunnvaxinn framan til en mjög þunnvaxinn að aftan. Mesta hæð er við rauf sem er framan við miðju og þaðan smámjókkar fiskurinn aftur eftir. Hausinn er langur og frammjór, kjafturinn endastæður og mjög langur og nær aftur fyrir augu, sem eru í meðallagi stór. Kjálkarnir eru jafnlangir og sá efri er með útstæða sepa. Á hvorum skolti er breið röð af smáum, strýtumynduðum og hvössum tönnum og á plógbeini eru tennur í einni röð.

Bakuggi byrjar aftan við raufarugga og nær alveg aftur á sporð. Þar er hann samvaxinn raufarugga sem byrjar rétt aftan raufar og er því lengri en bakuggi. Rák er sjáanleg. Hryggjarliðir eru 142-152. Um 150 cm djúpáll veiddist á Iínu á um 1260 metra dýpi í júní árið 1996 í Grænlandssundi (65°20'N, 28°35'V).

Litur: Djúpállinn er brúnn á lit en kjafturinn blásvartur að innan.

Heimkynni: Djúpáll lifir í öllum heimshöfunum. Í Norður-Atlantshafi lifir hann frá djúpmiðum vestan, suðvestan, sunnan og suðaustan Íslands til Færeyja og áfram vestur og suður fyrir Bretlandseyjar til Spánar, Asoreyja og Kanaríeyja og Norður-Afríku. Einnig undan Nígeríu til Suður-Afríku. Hann er ekki í Miðjarðarhafi. Í Norðvestur-Atlantshafi er hann undan ströndum Bandaríkjanna, Kanada og Vestur-Grænlands. Einnig er hann í Suður- Atlantshafi, Indlandshafi og Kyrrahafi.

Hér við land veiddist 31 cm djúpáll á 960-1030 m dýpi suðvestur af Selvogsbankatá (62°55'N, 22°26'V) í nóvember árið 1973 en þá höfðu Vestur-Þjóðverjar þegar veitt nokkra hér á Íslandsmiðum um nokkurt skeið. Árlega veiðast allmargir á miklu dýpi, einkum á svæðinu frá grálúðuslóð vestur af Víkurál og suður á Reykjaneshrygg þar sem hann er nokkuð algengur á 700-1 300 m dýpi. Þá hefur hann veiðst á djúpmiðum undan Suðurlandi og allt austur í Berufjarðarál.

Lífshættir: Djúpáll er djúpsjávarfiskur sem heldur sig einkum í landgrunnshallanum. Hann hefur veiðst á 240-4800 m dýpi.

Fæða djúpálsins er einkum smákrabbadýr en einnig fiskar og smokkfiskar, stundum nokkuð stórir.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?