Dílakjafta

Samheiti á íslensku:
Deplalúra
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Lepidorhombus boscii
Danska: fireplettet glashvarre
Sænska: fyrfläckig var
Enska: four spotted megrim
Þýska: Gefleckter Flügelbutt
Franska: cardine à quatre taches
Spænska: gallo de cuatro manchas
Portúgalska: areeiro-de-quatro-manchas

Dílakjafta er langvaxinn, þunnvaxinn og hávaxinn fiskur með vinstri hliðina upp og alllík stórkjöftu í fljótu bragði. Neðri skoltur er þó ekki jafn áberandi og trjóna er styttri en þvermál augna. Tennur eru allar smáar. Augu eru stór og stutt bil er á milli þeirra. Hægra auga er aftar en það vinstra. Bak- og raufaruggi eru langir og ganga lítið eitt yfir á Ijósu hliðina á sporðinum. Eyruggi vinstra megin, þ.e. dökku hliðarinnar, er næstum tvöfalt lengri en hægri eyruggi. Kviðuggarætur eru langar. Rák er greinileg og myndar boga yfir eyruggum. Dílakjafta getur orðið allt að 45 cm löng.

Geislar: B, 79-89; R, 64-69; hryggjarliðir: 41-42.

Litur er gulmóbrúnn á dökku hliðinni, tveir svartir dílar eru á aftari hluta bakugga og aðrir tveir á aftari hluta raufarugga. Hægri hlið er hvít.

Heimkynni dílakjöftu eru í Norðaustur- Atlantshafi frá vestanverðum Bretlandseyjum og inn í Biskajaflóa til Spánar, Portúgals og Marokkó. Þá er hún algeng í Miðjarðarhafi. Hér við land varð dílakjöftu fyrst vart í leiðangri Hafrannsóknastofnunar vorið 2008, en þá veiddust sex fiskar undan suðvestanverðu landinu. Nú veiðist hún á svæðinu frá Reykjanesgrunni, um Selvogsbanka, suður fyrir Surtsey, í Háfadjúp og austur í Skeiðarárdjúp. Hún hefur veiðst á 140-180 m dýpi og virðist algengust á Selvogsbanka. Áður hafði hún veiðst næst Íslandi, svo öruggt sé, á Rockallbanka.

Lífshættir. Dílakjafta er botnfiskur sem heldur sig einkum á leirbotni og veiðist allt niður á 800 m dýpi en er algengust á 200-400 m.

Fæða er smákrabbadýr, einkum rækjur.

Nytsemi. Dálítið er veitt af dílakjöftu og eru helstu veiðiþjóðir Spánverjar, Portúgalir og Grikkir.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?