búri (íslenska)

Búrfiskur

Samheiti á íslensku:
búri
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Hoplostethus atlanticus
Danska: orange savbug, soldatfisk
Færeyska: búrfiskur
Sænska: Atlantisk slemhuvudfisk
Enska: orange roughy
Þýska: Atlantischer Sägebarsch, Breitmaulbarsch, Granatbarsch, Kaiserbarsch, Schleimkopf
Franska: empereur, hoplostète orange, hoplostète rouge
Spænska: reloj anaranjado
Portúgalska: olho-de-vidro-laranja
Rússneska: Длиннохвостая летучая мышь / Dlinnokhvóstaja letútsjaja mysh', Исландский хоплостетус / Islándskij khoplostétus

Búrfiskur er hávaxinn, þunnvaxinn og hausstór fiskur. Mesta hæð er um hausamótin. Haus er bogadreginn að framan, kjaftur er stór og víður og mjög skástæður. Tennur á skolturn eru smáar. Engar tennur eru á plógbeini en fjöldi smátanna er utan á kjálkum. Augu eru stór. Hausbeinin mynda óreglulega kamba og á milli þeirra eru holur fullar af slími. Í heilabúinu er hvít fita. Sundmagi er einnig fullur af hvítri fitu. Bakuggi er langur og allhár en raufaruggi er stuttur. Sporður er stór og sýldur. Eyruggar eru stórir og bogadregnir fyrir endann. Kviðuggar eru frekar smáir. Hreistur er stórt og kjalhreistur er á kviði. Búrfiskur verður allt að 75 cm. Árið 1993 veiddist 71 cm búrfiskur á Reykjaneshrygg (62°04'N, 26°47V).

Litur: Búrfiskur er appelsínugulur eða rauður á lit en kjaftur er svartur að innan og lífhimna er einnig svört.

Geislar: B, V VI + 15-19; R, TIl + 10-12; hryggjarliðir: 27.

Heimkynni búrfisks eru frá vestanverðum Íslandsmiðum suður fyrir Reykjanes og allt til Rósagarðs undan Suðausturlandi og þaðan vestur fyrir Bretlandseyjar suður til Biskajaflóa og Asóreyja. Hans mun hafa orðið vart á meira en 600 m dýpi undan Vestur-Grænlandi samkvæmt sovéskum heimildum. Einnig er hann í Suðaustur-Atlantshafi, frá Walvisflóa í Namibíu suður fyrir Góðrarvonarhöfða í Suður-Afríku og inn í lndlandshaf, m.a. við Madagaskar. Hann er í vestanverðu Atlantshafi í Maineflóa. Þá er hann í Kyrrahafi við Nýja-Sjáland, Suður-Ástralfu og Chile.

Hér virðist mest vera um hann á Reykjaneshrygg djúpt suðvestur af landinu og út af Skaftárdjúpi.

Búrfiski var fyrst veitt veruleg athygli á Íslandsmiðum í nóvember árið 1949 en þá veiddi þýskur togari fimm búrfiska, 54-68 cm langa, í einu togi á 340 m dýpi út af Öræfagrunni. Þýskir togarasjómenn töldu sig oft áður hafa veitt samskonar fiska án þess að veita þeim sérstaka athygli. Næst veiddust 23 búrfiskar, 54- 62 cm langir, á 220-240 m dýpi í Síðugrunnshalla í janúar 1951. Síðan hafa veiðst allmargir á 180-1060 m dýpi hér við land á svæðinu frá vestanverðum Víkurál suður um til Rósagarðs.

Þýski fiskifræðingurinn A. Kotthaus taldi fyrst að hér væri um nýja tegund fyrir vísindin að ræða og lýsti henni og gaf henni vísindanafnið Hoplostethus islandicus. Síðar kom í ljós að hér var um áður þekkta tegund, Hoplostethus atlanticus, að ræða.

Lífshættir: Búrfiskur er miðsævis-, botn- og djúpfiskur sem veiðst hefur á 180-1520 m dýpi en finnst þó sjaldan grynnra en á 200- 250 m dýpi. Hér við land virðist búrfiskur vera einna algengastur á 500-1000 m dýpi. Hann heldur sig gjarna við toppa og hlíðar neðansjávartinda eins og á Reykjaneshrygg.

Fæða er alls konar fiskar, t.d. kolmunni, en einnig krabbadýr eins og rækja og margt fleira.

Hér við land virðist búrfiskur hrygna í janúar til mars. Við Ástralíu hrygnir hann í maí til ágúst á 750-950 m dýpi og við Nýja-Sjáland í júní til ágúst á 700-950 m dýpi. Talið er að hann vaxi hægt og verði seint kynþroska, e.t.v. ekki fyrr en 15-20 ára eða eldri, jafnvel 30 ára. Álitið er að búrfiskur geti orðið meira en 50 ára gamall, jafnvel yfir 100 ára og sumir fræðingar telja 150 árekki fjarri lagi.

Nytjar: Veiðar á búrfiski hófust árið 1978 við Nýja-Sjáland, 1988 við Ástralíu, 1991 vestan Bretlandseyja og Færeyja og 1995 við Namibíu. Hér við land hefur hann einnig verið veiddur og settur á markað, m.a. seldur ísaður til Frakklands og fryst flök seld til Bandaríkjanna. Ekki virðist vera svo mikið um hann á Íslandsmiðum að um stöðugar veiðar geti orðið að ræða. Afli varð mestur rúmlega 700 tonn árið 1993 en á síðari árum hefur hann aðeins náð fáum tonnum.

Vegna þess hve hægvaxta og seinþroska búrfiskur er þola stofnar hans ekki miklar veiðar.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?