litli búri (íslenska)

Búrfisksbróðir

Samheiti á íslensku:
litli búrfiskur, litli búri
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Hoplostethus mediterraneus
Danska: middelhavssavbug
Færeyska: brynjubúrfiskur
Sænska: Medelhavets slemhuvudsfisk
Enska: black mouthed alfonsin, Mediterranean slimehead fish, rosy soldier fish, rough fish, sawbelly, silver roughy
Þýska: Silberbarsch
Franska: hoplostète argenté
Spænska: reloj-mediterráneo
Portúgalska: olho-de-vidro
Rússneska: Средиземноморский большеголов

Búrfisksbróðir er hávaxinn og þunnvaxinn fiskur. Spyrðustæðið er grannt á litlum fiskum en þykkt á stórum. Haus er stór og álíka hár og hann er langur. Trjóna er ávöl. Kjaftur er skástæður. Á enda neðri skolts er smá hnúður. Hausbeinin mynda þunna, mjúka og tennta hryggi og eru holur á vangabeini en engar á tálknaloksbeini. Tennur eru smáar á skoltum og í beinum röðum að framan. Plógbein er venjulega tannlaust hjá stórum fiskum en með smá röð af tönnum hjá minni fiskum. Gómbein eru tennt. Kjölur á milli kviðugga og raufarugga er þakinn hvössum hreisturblöðum. Fjarlægðin frá trjónu að bakugga er aðeins lengri en bakuggarætur. Bakuggi er alllangur og uggagaddar litlir og sá fremsti mjög stuttur. Raufaruggi er mun styttri en bakuggi og gaddar hans styttri en bakuggagaddar. Fremsti gaddur er mjög stuttur. Sporður er stór og djúpsýldur. Eyruggar eru vel þroskaðir. Kviðuggar eru framan við eyrugga og fremst í þeim er broddgeisli. Rák er greinileg. Búrfiskbróðir verður um 42 cm að sporði.

Litur er fölljósrauður, kviður er svartleitur en rósrauður ofan rákar, skærrauður á haus og hnakka. Haus og kjammar eru með silfurblæ að neðan. Uggar eru skærrauðari en bolurinn. Lífhimna er svört.

Geislar: B: VI-VII+ 12-15,- R: 111 + 8-1 1.

Heimkynni búrfisksbróður eru í vestanverðu Miðjarðarhafi, norðaustanverðu Atlantshafi frá Grænhöfðaeyjum og Asóreyjum til Bretlandseyja og flækingar álpast til Íslandsmiða. Í suðaustanverðu Atlantshafi er hann frá Namibíu til Suður-Afríku og þaðan áfram inn í Indlandshaf til Natal.

Einnig er hann við Suður-Ástralíu og Nýja- Sjáland. Í vestanverðu Atlantshafi er hann frá Brownsbanka sunnan Nýja-Skotlands suður til Flórída og Mexíkóflóa og undan norðanverðri Suður-Ameríku. Hér varð hans fyrst vart í mars árið 1964 þegar einn, 17 cm langur, veiddist á 810 m dýpi djúpt undan Suðvesturlandi (63°13'N, 25°50'V). Í október 1998 veiddist einn 18 cm langur í utanverðu Skerjadjúpi (63°07'N, 23°41 'V) og í mars 2001 veiddist einn, 21 cm langur, á Eldeyjarsvæðinu undan Suðvesturlandi.

Lífshættir: Búrfisksbróðir er miðsævis- og djúpfiskur sem veiðst hefur á 100-1200 m dýpi. Fæða er ýmis smá krabbadýr, t.d. Ijósáta og einnig smáfiskar eins og laxsíldir, gulldepla og fleira.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?