Brynhali

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Coryphaenoides armatus
Danska: Pansret skolæst
Pólska: Bulawik ostrogon
Enska: Armed grenadier
Franska: Grenadier abyssal
Spænska: Granadero abisal
Portúgalska: Lagartixa-de-natura
Rússneska: Dolgokhvost vooruzhennyi

Myndin af brynhala er tekin af frosnu eintaki og verður skipt út við fyrsta tækifæri.

 

Brynhali er allhausstór og langvaxinn fiskur, þykkur á bol en þynnist og mjókkar aftur eftir og endar í mjórri totu eða hala án skýrt afmarkaðrar sporðblöðku. Trjóna er oddmjó og lengri en þvermál augna. Augu eru frekar smá. Kjaftur er í meðallagi stór. Tennur í efri skolti eru í tveimur röðum og eru tennur ytri raðar stærri. Í neðri skolti er einföld tannaröð. Hökuþráður er greinilegur. Fremri bakuggi er allhár og annar geisli hans er sagtenntur. Aftari bakuggi byrjar vel aftan við þann fremri og aftan við fremri rætur raufarugga. Raufaruggi er því aðeins lengri en aftari bakuggi en þeir renna saman við halaenda án sporðblöðku. Eyruggarætur eru framan við fremri rætur fremri bakugga. Kviðuggar eru undir fremri rótum eyrugga. Fremsti geisli kviðugga er langur. Hreistur er broddað.

Brynhali verður allt að 100 cm á lengd.

Litur: Brynhali er brúnn eða rauðbrúnn, uggahimnur brúnleitar og kjaft- og tálknahol svartleitt.

Geislar: Bl: 10-12.

Heimkynni brynhala eru í öllum heimshöfum. Í norðaustanverðu Atlantshafi er hann frá Madeira norður til íslandsmiða og Austur-Grænlands. Í norðvestanverðu Atlantshafi er hann að finna frá Davissundi vestan Grænlands suður til Kúbu. Í suðvestanverðu Atlantshafi hefur hann fundist undan Montevideo í Úrúgvæ. Þá er hann í sunnanverðu Indlandshafi, við Nýja-Sjáland og víðar í Kyrrahafi.

Á Íslandsmiðum fannst brynhali í ágúst árið 1995 á 2074 og 2267 m dýpi djúpt suður af Ingólfshöfða (62°20'N, 17°00'V og 61°50'N, 16°54'V). Alls voru þetta fjórir fiskar, 22-32 cm langir. Þá veiddist einn brynhali, 14 cm langur, í sama mánuði á 1688 m dýpi djúpt suður af Vestmannaeyjum (62°04'N, 20°35'V).

Lífshættir: Brynhali er miðsævis-, botn- og djúpfiskur sem veiðst hefur á 280-4700 m dýpi. Oftast er hann dýpra en 2000 m.

Fæða er m.a. ýmis smákrabbadýr, bæði botnlæg og sviflæg, skrápdýr, smokkfiskar og fiskar.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?