Bogkrabbi

Samheiti á íslensku:
strandkrabbi
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Carcinus maenas
Danska: Almindelig strandkrabbe
Sænska: Strandkrabba
Enska: North Atlantic shore crab, Harbour crab, Green shore crab, Green crab, European shore-crab, Common shore crab
Þýska: Gemeine
Franska: Crabe vert, Crabe enragé
Spænska: Cangrejo verde europeo, Cangrejo de mar común

Útlit

Bogkrabbi er lítill, skjöldur hans verður hátt í átta cm breiður og sex cm langur. Skjöldurinn er óliðskiptur, bogadreginn að framan og tenntur, með fimm tönnum hvorum megin, utan við augun. Tveir augnkrikar eru fremst fyrir miðri skel þar sem augun standa á stuttum stilkum. Á milli augnanna eru tveir stuttir fálmarar. Fjögur pör af ganglimum, sem enda í broddi, eru á kvið og eru lengri en breidd skjaldarins. Ystu liðir á öftustu ganglimum eru flatir og hærðir. Framan við ganglimi eru tvær gripklær, nær jafnstórar. Halinn er flatur og gengur aftan undan skildinum og liggur fram, þétt undir kviðnum. Halinn á kvendýrinu er hringlaga en hjá karldýrinu er hann mjórri og endar í oddi. Skjöldur og útlimir bogkrabbans eru dökkgræn eða grænbrún, stundum með gulu eða jafnvel bláu ívafi. Að neðan er krabbinn hvítur.

Bogkrabbinn hefur eins og önnur krabbadýr um sig harða skel. Þegar hann vex kemur að því að skelin verður of lítil. Þá skríður hann úr gömlu skelinni og myndar um sig nýja sem er vel við vöxt. Þetta gerir hann nokkrum sinnum á ári fyrstu árin en þegar fer að draga úr vexti hefur hann skelskipti einu sinni á ári.

Útbreiðsla

Bogkrabbi hefur lengi verið talinn með algengustu kröbbum Íslands og finnst einkum í klappar- og hnullungafjörum. Bogkrabbi var áður þekktur einungis á Suðvestur- og Vesturlandi en hefur nýlega fundist í kaldari sjó norðan lands. Bogkrabbi hefur einnig greinst í fæðu botnfiska við Norðurland og Suðausturland.

Bogkrabbinn lifir við strendur Evrópu frá Norður-Noregi suður til Gíbraltarsunds og einnig verður vart við hann í Máritaníu á Vesturströnd Afríku. Á síðustu öld dreifðist tegundin víða með skipum og lifir nú meðal annars við austur- og vesturströnd Norður-Ameríku og í Ástralíu. Náttúruleg heimkynni bogkrabba eru í Evrópu en utan hennar telst hann ágeng tegund. Bogkrabbbinn hefur mikla aðlögunarhæfni, þolir margskonar umhverfi og er á lista yfir 100 ágengustu tegundum heims, vegna þess hve miklum skaða hann getur valdið.

Lífshættir

Bogkrabbi lifir frá miðri fjöru niður á 60 m dýpi á miðlungsbrimasömum stöðum. Bogkrabbi lifir bæði á hörðu og mjúku undirlagi og gjarnan á grýttum botni þar sem hann getur fundið sér skjól. Hann má finna undir steinum og í fjörupollum. Með tilkomu grjótkrabba til landsins hefur útbreiðsla bogkrabba breyst. Hér við land virðist bogkrabbi verða undir í samkeppni við grjótkrabba, sérstaklega á sandbotni þar sem grjótkrabbinn er nú alveg ríkjandi.

Bogkrabbinn hefur mjög fjölbreytt fæðuval en étur fyrst og fremst smávaxin fjörudýr eins og burstaorma, samlokur, kuðunga og krabba. Meðan bogkrabbinn er ungur lifir hann m.a. á hrúðurkörlum og smáum lindýrum. Bogkrabbi er árásargjarn, rekur aðrar tegundir í burtu og hefur valdið skaða í þeim vistkerfum sem hann er ágengur í. Aukning í útbreiðslu bogkrabba veldur minnkun á þéttleika trjónukrabba þar sem báðar tegundir finnast.

Mökun fer fram þegar kvendýrin hafa skelskipti, yfirleitt seinni hluta sumars. Karldýrið heldur utan um kvendýrið í nokkurn tíma eða þar til skelskiptin verða og mökun fer fram. Kvendýrið hrygnir appelsínugulum hrognum sem það festir undir halann.

Hrognin þroskast undir skildinum fram á næsta vor. Þá klekjast út lirfur sem fara upp undir yfirborð sjávar og hafast síðan við í svifinu í nokkrar vikur. Á meðan lirfurnar eru í svifinu eru þær gerólíkar fullorðnu dýrunum. Lirfurnar nærast á svifþörungum. Þær hafa skelskipti nokkrum sinnum og breytist útlitið í hvert sinn. Þegar lirfurnar hafa tekið út sinn þroska í svifinu setjast þær á botninn og hafa þá fengið útlit fullorðnu dýranna, þó að þær séu auðvitað mun minni. Bogkrabbi verður 4 til 7 ára gamall.

Bogkrabbi hefur greinst í fæðu ýsu og þorsks við Ísland. Mest hefur orðið vart við hann í mögum fiska sem veiddir voru vestur- suður-, og norður af landinu. Bogkrabbi var étinn af fiskum sem voru veiddir á 50-250 m dýpi við 6-10⁰C að sumri og hausti til.

Nytjar

Bogkrabbi hefur ekki verið nýttur við Ísland.

Heimildir/ ítarefni

Karl Gunnarsson. 2010. Bogkrabbi. Fjaran og hafið. https://www1.mms.is/hafid/dyr.php?val=5&id=122.

Hér má sjá grein um breytingar á útbreiðslu krabba í grjót- og klapparfjörum á Vesturlandi: https://www.hafogvatn.is/is/moya/news/breytingar-a-utbreidslu-krabba-i-grjot-og-klapparfjorum-a-vesturlandi

Jörundur Svavarsson & Pálmi Dungal. 2008. Leyndardómar sjávarins við Ísland. Glóð.

Agnar Ingólfsson, Hrefna Sigurjónsdóttir, Karl Gunnarsson og Eggert Pétursson. 1986. Fjörulíf. Ferðafélag Íslands.

Bogkrabbi í fæðu fiska: Ragnhildur Sara Bergsdóttir. 2025. Íslenskir krabbar í fæðu ránfiska (https://hdl.handle.net/1946/50291) [Bakkalár, Háskóli Íslands]. Skemman. https://skemman.is/handle/1946/50291

Bæklingur um 100 ágengustu tegundir heims: Lowe S., Browne M., Boudjelas S., De Poorter, M.. 2004. 100 of the World’s Worst Invasive Alien Species A selection from the Global Invasive Species Database. Published by The Invasive Species Specialist Group (ISSG). Bæklingur var uppfærður 2013 (https://www.nature.com/articles/498037a), heimild sótt 2. júlí 2025 af https://www.iucngisd.org/gisd/100_worst.php

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?