Bleikskata

Samheiti á íslensku:
fölva skata
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Malacoraja kreffti
Enska: Krefft's ray
Franska: Raie de Krefft
Spænska: Raya de Krefft
Rússneska: Скат Креффта / Skat Kréffta

Bleikskatan er trjónustutt skata, með hjartalaga skífu og bogadregna til hliða. Engir stórir gaddar eru á efra borði skífu né hala, hvorki miðstæðir né hliðlægir en fíngerðir gaddar og þéttstæðir eru á hala og grófari gaddar á halahliðum. Nokkrir smáir gaddar eru framan við augu og tveir eru aftan við hvort auga. Bakuggar eru samvaxnir. Bleikskata verður um 70 cm á lengd.

Litur: Bleikskata er gráhvít eða fölbleik bæði á efra og neðra borði.

Heimkynni: Fyrsta bleikskata sem veiddist fannst í nóvember 1974 í norðvestur-kanti Bill Baily-banka, það er á milli Færeyja og Rockall. Í júní byrjun árið 1992 veiddist ein, 57 cm langur hængur, á 1095-1 100 m dýpi djúpt undan Öndverðarnesi (65°00'N, 28°23 'V) og í mars 1995 veiddust þrjár á 915-1000 m dýpi í utanverðu Háfadjúpi. Voru það tveir hængar, 43 og 49 cm langir, og ein hrygna 53 cm löng.

Lífshættir eru óþekktir.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?