Blámævill

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Bythites islandicus

Ljósmynd vantar.

 

Blámævill er stuttvaxinn, þykkvaxinn að framan og hausstór fiskur. Hausinn er um fjórðungur heildarlengdar fisksins. Augu eru í meðallagi stór. Efri skoltur nær aftur fyrir augu. Tennur eru hvassar og mislangar. Á miðskoltsbeini eru fjórar raðir af tönnum. Á plógbeini eru 20—25 tennur í óreglulegum röðum. Á gómbeinum eru 15 óreglulegar tennur. Fremri nasir eru pípulaga en þær aftari aðeins holur, rétt aftan við augun. Efst á aftanverðu tálknaloki er húðklæddur tvískiptur gaddur. Bak- og raufaruggar renna saman við sporð. Bakuggi nær fram á móts við miðja eyrugga. Eyruggar eru stórir og breiðir en kviðuggar eru aðeins einn þykkur geisli hvor uggi. Þeir eru kverkstæðir og ná aftur á móts við miðja eyrugga. Rák er greinileg og tvískipt. Frá sporði og fram fyrir rauf er hún miðlæg en síðan færist hún ofar og liggur þannig fram á móts við tálknaloksenda. Stærsti blámævill sem veiðst hefur mældist 10 cm.

Litur er blágrár, Ijósari á kvið.

Geislar: B: 76-79,- R: 46-50,- hryggjarliðir: 49-50.

Heimkynni: Af þessari tegund hafa aðeins veiðst 6 fiskar, 4-10 cm langir, á um 230-280 metra dýpi í Lónsdjúpi (63°53'N, 14°03'V) við Suðausturland. Þeir veiddust allir í einu í humarvörpu í júní árið 1967 í rannsóknarleiðangri á varðskipinu Maríu Júlíu. Einn þessara fiska, 9 cm langur, var aldursákvarðaður með hjálp kvarna og reyndist vera fimm ára gamall. Önnur tegund sömu ættkvíslar, Bythites fuscus, er við Grænland.

Lífshættir: Blámævill er botnfiskur á grýttum kóralbotni.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?