Berhaus

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Alepocephalus agassizii
Danska: Agassiz glathovedfisk
Færeyska: smáskrubbuti glámur
Enska: Agassiz' smooth-head
Rússneska: Гладкоголов Агассица / Gladkogolóv Agassítsa

Berhaus er frekar þykkvaxinn fiskur og í meðallagi hávaxinn, hæstur á móts við eyrugga. Haus er mjög stór og ennið bogadregið. Neðri skoltur er örlítið framteygður eða jafnskolta og tennur eru smáar. Augu eru stór.

Bak- og raufaruggar eru jafnstórir og andspænis hvor öðrum, vel aftan við miðjan fisk. Sporður er djúpsýldur. Eyr- og kviðuggar eru frekar litlir, hreistrið er smátt og rákin greinileg. Berhaus verður 80-90 cm á lengd og e.t.v. allt að 100 cm.

Litur: Berhaus er dökkur á lit, haus og uggar nærri svartir.

Geislar: B: 15-18,- R: 16-18.

Heimkynni berhauss eru í Norður-Atlantshafi, að vestan frá Davissundi suður til 15°N og að austan frá Fylkismiðum við Austur-Grænland, þar sem tveir veiddust í febrúar 1981 á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni, til Íslandsmiða og þaðan til Írlands og allt suður til Máritaníu.

Hér varð berhauss fyrst vart í hafrannsóknarleiðangri danska rannsóknaskipsins Ingólfs 1895-1896 á 1670 m dýpi djúpt undan Suðvesturlandi. Hann virðist vera all algengur á meira en 600 m dýpi vestur og suðvestur af landinu.

Lífshættir: Berhaus er djúpfiskur og sennilega botnfiskur sem fer þó upp um sjó því hann hefur einnig veiðst í flotvörpu, m.a. á 400—500 m dýpi suður af Reykjanesi. Hann heldur sig annars yfir sand- og leirbotni á 600-2500 m dýpi.

Í lok maí 1992 varð vart við nokkra 55—77 cm langa hrygnandi berhausa á 1250-1500 m dýpi (3,8°C) í Grænlandshafi djúpt vestur af Öndverðarnesi.

Fæða berhauss er einkum kambhveljur en einnig krabbadýr, skrápdýr og burstaormar.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?