Áttstrendingur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Leptagonus decagonus
Danska: arktisk panserulk
Færeyska: Ishavsbrynjukrutt
Norska: tiskjegg
Sænska: tiotömmad skäggsimpa, smalbottenmus
Enska: Atlantic poacher, Atlantic seapoacher, northern alligatorfish
Þýska: Gewöhnliche Panzergroppe
Franska: agone atlantique
Rússneska: Лисичка гренландская / Lisítsjka grenlándskaja

Áttstrendingur Iíkist sexstrendingi í útliti en er þó hausminni og mjóvaxnari. Ofan á snjáldri eru tveir litlir broddar en engir skeggræðir neðan á því. Skeggþræðir eru neðan á neðri skolti. Horn eru á augabrúnum og aftast á hnakka. Augu eru allstór, stærri en á sexstrendingi. Kjaftur er neðan á hausnum. Haus og bolur eru svipaðir lengd. Stirtla er löng. Bakuggar eru tveir og vel aðgreindir. Raufaruggi byrjar aðeins framar en aftari bakuggi. Sporður er lítill. Eyruggar eru stórir en kviðuggar litlir. Haus, bolur og stirtla eru öll brynvarin beinplötum í átta röðum á bol og framanverðri stirtlu en í sex röðum aftan til á stirtlu. Áttstrendingur verður um 22 cm að stærð.

Litur er gulgrár með tveimur til þremur dökkum þverblettum. Eyruggar eru dökkir að aftan.

Geislar: B 1: VII; B2, 5-8; R, 6-8.

Heimkynni áttstrendings eru öll köld höf á norðurhveli jarðar. Hann er við Svalbarða og víðar í Barentshafi, í Hvítahafi og Karahafi, við Norður-Noreg, Færeyjar, Ísland og Grænland beggja vegna og í Baffinsflóa, undan Labrador, við Nýfundnaland á Stórabanka suður til Sableeyjar undan Nýja-Skotlandi. Þá er hann í Beringshafi og Okotshafi norðan Japans.

Hér á Íslandsmiðum er áttstrendingur aðeins í kalda sjónum norðvestan-, norðan-, norðaustan- og austanlands.

Lífshættir: Áttstrendingur er botnfiskur a leir- og sandbotni en einnig á grýttum botni. Hann er sjaldséður á minna dýpi en 100 m nema við Labrador en þar er hann algengur grynnra. Hér við land er hann mest á 100- 500 m dýpi en hefur fengist niður á 600 m. Við Svalbarða hefur hann veiðst niður á 1475 m og vestan Grænlands niður á 930 m.

Fæða er mest smákrabbadýr og burstaormar.

Hrygning hér fer fram í kalda sjónum að sumri til. Fiskar komnir nálægt hrygningu, 11-16 cm langir, bæði hrygnur og hængar, hafa veiðst undan Austur- og Norðurlandi í maí og júní og svifseiði hafa fundist frá síðari hluta maí til júlíloka. Fjöldi eggja er 480-1750 og eru þau um 2 mm í þvermál og botnlæg. Seiði eru sviflæg þar til þau eru um 28 mm löng en þá leita þau botns.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?