Vargakjaftur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Bathysaurus ferox
Danska: Dybhavsøglefisk
Enska: Deep-sea lizardfish
Portúgalska: Peixe-lagarto

Myndir af vargakjafti eru teknar af frosnu eintaki og verður skipt út við fyrsta tækifæri.

 

Vargakjaftur er langvaxinn, rennilegur og sterklega vaxinn fiskur með stóran, þunnvaxinn og flatan haus. Kjafturinn er mjög stór, skoltar ná vel aftur fyrir augu. Neðri skoltur er lengri en sá efri. Raðir oddhvassra tanna eru á miðskoltsbeini, gómbeinum og í neðri skolti. Eru þær jafnvel útstæðar þegar fiskurinn er með lokaðan kjaft. Augu eru allstór. Uggar eru allir vel þroskaðir. Bakuggi er mjög langur, um tvöfalt lengri en raufaruggi og hæstur fremst. Aftari rætur hans eru rétt framan við fremri rætur raufarugga. Sporðblaðka er stór og grunnsýld. Eyruggar ná vel aftur fyrir fremri rætur bakugga. Sjötti eða sjöundi geisli eyrugga teygist aftur og upp á við. Kviðuggar eru undir eyruggum. Veiðiugga vantar en hann er á öðrum tegundum ættarinnar sem þekkjast í Norðaustur-Atlantshafi. Hreistur er stórt og nær fram á kinnar og hnakka. Rákarhreistur er stærra en bolhreistur. Einn 65 cm langur vargakjaftur veiddist í maí 1991 á grálúðuslóð vestan Víkuráls.

Litur er brúnn eða grábrúnn en kjafturinn svartur að innan og Iífhimna er svört.

Geislar: B: 17-18,- R: 11-13,- hryggjarliðir: 63.

Heimkynni: Vargakjaftur hefur fundist í austanverðu Atlantshafi, frá Íslandsmiðum til Suður-Afríku. Hann er ekki í Miðjarðarhafi. Í vestanverðu Atlantshafi er hann frá Davissundi við Vestur-Grænland til Brasilíu. Í Kyrrahafi hefur hann fundist undan austurströnd Nýja-Sjálands en þar veiddist sá fyrsti sem fannst í heiminum árið 1878.

Hér fannst vargakjaftur fyrst á 950 m dýpi á grálúðuslóð vestan Víkuráls (65°35'N, 28°30'V) í júní árið 1990. Annar, 62 cm langur, veiddist í mars mánuði árið 1991 á 400—430 m dýpi við Fótinn út af Skrúðsgrunni (64°35'N, 11°51'V til 64°29'N, 11°58'V). Í maí sama ár veiddist sá þriðji á 970-1280 m dýpi á grálúðuslóðinni vestan Víkuráls. Hann var 65 cm langur og sá lengsti sem veiðst hefur. Sumarið 1995 veiddist einn, 61 cm langur, á 1100-1370 m dýpi á margnefndri grálúðuslóð og árið 1997 fékkst einn utan 200 sjómílna markanna suðvestur af Reykjanesi. Sá fyrsti á nýrri öld veiddist í maí 2002 á 165-275 m dýpi á Stokksnesgrunni (63°36'N, 14°52'V). Hann var 63 cm langur.

Lífshættir: Vargakjaftur er djúp- og botnfiskur sem veiðst hefur á 165-3500 m dýpi og í kaldari sjó en 4°C. Virðist hann vera algengastur á minna en 2000 m dýpi. Seiði eru sviflæg.

Fæða er einkum hotnfiskar og botnkrabbadýr.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?