Vöktun veiðiáa

Endurskoðun á áhættumati erfðablöndunar - fréttatilkynning

Endurskoðun á áhættumati erfðablöndunar - fréttatilkynning

Hafrannsóknastofnun gaf fyrir ári síðan út áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi. Áhættumatið var unnið af sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar ásamt erlendum sérfræðingum og hefur hlotið rýni erlendra sérfræðinga. Umhverfissjóður sjókvíaeldis styrkti vinnu við matið, sem var unnið að beiðni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Þetta var gert í kjölfar vinnu stefnumótunarnefndar í fiskeldi sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði. Í nefndinni áttu fulltrúa Landssamband fiskeldisstöðva, Landsamband veiðifélaga, umhverfis- og auðlindaráðuneytið auk fulltrúa atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytis. Nefndin lagði meðal annars til að umfangi fiskeldis yrði stýrt á vísindalegan máta og á þeim grunni var áhættumatið unnið.

Í kjölfar vinnu nefndarinnar var skrifað frumvarp til laga um breytingar á lögum um fiskeldi og fleiri lögum með það að markmiði að styrkja lagaumgjörð fiskeldis svo unnt væri að stýra framþróun atvinnugreinarinnar á sjálfbæran hátt byggt á vísindalegum grunni. Í frumvarpinu var m.a. lagt til að fyrrgreint áhættumat erfðablöndunar yrði lögfest auk þess að leyfilegt magn frjórra laxa í rekstrarleyfum yrði í samræmi við niðurstöður áhættumatsins á hverjum tíma. Frumvarpið var til umsagnar á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í vor. Þegar búið var að fara yfir athugasemdir og taka tillit til þeirra var frumvarpið lagt fram af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á Alþingi og mælt fyrir því. Því miður varð frumvarpið ekki að lögum á vorþingi en til stendur að endurflytja málið á komandi haustþingi.

Áhættumatið sem gefið var út í júlí í fyrra gaf þá niðurstöðu að óhætt væri að ala hér við land 71.000 tonn af frjóum laxi. Ljóst er að það tekur mörg ár að ná þessari framleiðslu hér við land. Jafnframt var tekið fram að nokkur óvissa ríkir um ákveðna þætti í matinu sem reynsla og frekari rannsóknir leiða í ljós hver er. Nauðsynlegt er einnig að vakta vel laxveiðiár landsins og fylgjast með hvort og í hve miklu mæli strokulax úr eldi kemur í árnar og í hve miklu mæli hann blandast náttúrulegum stofnum. Þá var lagt til að magn eldsislaxa í laxveiðiám færi hvergi yfir 4%. Eiginleg erfðablöndun er mun lægri en sú tala vegna skertrar getu eldislax til hrygningar. Þegar er hafin vöktun á ánum. Helstu stofnanir eins og Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og Matvælastofnun hafa stuðst við áhættumatið og burðarþolsmat einstakra hafsvæða í sinni vinnu. Áhættumatið er því þegar til leiðsagnar innan stjórnkerfisins þó það eigi sér ekki bein fyrirmæli í lögum.

Viðræður hafa staðið yfir milli Hafrannsóknastofnunar og Landsambands fiskeldisstöðva hvernig megi með mótvægisaðgerðum draga úr áhættu af erfðablöndun milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi. Í þeim viðræðum hefur komið fram að nú þegar er hægt að samræma lágmarksstærð útsettra gönguseiða og möskvastærð netpoka kvía og koma þannig í veg fyrir að seiði sleppi með því að smjúga út úr kvíunum. Þá er hægt að tefja kynþroska með notkun ljósa í kvíum yfir veturinn og þannig verður stærstur hluti laxanna ekki kynþroska fyrir slátrun. Hafrannsóknastofnun hefur lagt til við Matvælastofnun að þessi skilyrði verði sett í ný rekstrarleyfi til eldis frjórra laxa í sjókvíum enda munu þau draga úr áhættu af erfðablöndun ef eftir þeim er farið.

Óskað hefur verið eftir að Hafrannsóknastofnun að endurskoði áður útgefið áhættumat erfðablöndunar, m.a. af hálfu Landsambands fiskeldisstöðva. Á Hafrannsóknastofnun var sett upp ráðgjafanefnd fiskeldis, sambærileg við ráðgjafanefndir um fiskveiðar, og hefur nefndin nú farið yfir helstu þætti áhættumatsins. Fyrir liggur að í núgildandi lögum er ekki að finna heimild til að draga úr eldi sem leyft hefur verið á grunni áhættumats reynist leyfilegt eldi vera of mikið. Slíka heimild er hins vegar að finna í fyrrgreindu frumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þess vegna varð það niðurstaða ráðgjafanefndarinnar að ekki væri ráðlegt að breyta áhættumatinu við núverandi aðstæður. Er sú niðurstaða einnig byggð á varúðarnálgun er varðar umhverfið.

Til að styrkja vísindalegan grundvöll áhættumatsins hefur Hafrannsóknastofnun í hyggju að gera frekari rannsóknir og hyggst stofnunin óska eftir fjármagni í þeim tilgangi. Meðal annars þarf að gera rannsókn á hvort sá norskættaði stofn sem hér er notaður í fiskeldi lifir af sjávardvöl við Ísland. Þetta yrði gert með rannsóknum þar sem seiðum af eldisstofninum yrði sleppt í hafbeitaraðstöðu á Vestfjörðum og á Austfjörðum. Rannsóknin yrði takmörkuð að umfangi og seiðum af íslenskum stofnum sleppt til samanburðar.

Þá hefur stofnunin í hyggju að gera takmarkaða tilraun í Ísafjarðardjúpi til að rannsaka ákveðna þætti í fiskeldi í samvinnu við eldisfyrirtæki. Tilraunin yrði takmörkuð í magni við hámark 3.000 tonn af frjóum laxi og til 5 ára. Umhverfisþættir yrðu mældir sérstaklega og þá yrði umhverfi kvíanna vaktað sérstaklega með tilliti til lífríkis. Í eldinu yrðu vaktaðir almennir þættir eins og lifitala, vöxtur og kynþroski. Þá yrðu allir laxar merktir sérstaklega til að þeir þekkist ef þeir sleppa og koma fram í ám og yrðu árnar við Ísafjarðardjúp vaktaðar sérstaklega. Sérstakar rannsóknir færu fram á laxalús bæði í kvíunum og í villtum laxfiskum, en laxalús er víða mikið vandamál. Einnig yrðu aldir í tilrauninni ófrjóir laxar til samanburðar við frjóa laxa. Nánari rannsóknaráætlanir eru í vinnslu en gert er ráð fyrir að rannsóknir hefjist vorið 2019.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?