Vöktun veiðiáa

Bráðabirgðatölur fyrir stangveiði á laxi sumarið 2017

Bráðabirgðatölur fyrir stangveiði á laxi sumarið 2017

Stangveiðin 2017 var nærri langtímameðaltali. Veiðin á Vesturlandi 2017 var svipuð og hún var 2016 en minnkun í öðrum landshlutum.

Laxveiðitímabilinu er nú lokið í flestum ám landsins. Enn er þó veitt í ám þar sem uppistaðan í veiðinni er lax úr sleppingum gönguseiða, en þar stendur veiði til 20. október.  Bráðabirgðatölur yfir stangveiði á laxi sumarið 2017 sýna að alls veiddust um 46.500 laxar (1. mynd). Í heild var fjöldi stangveiddra laxa um 10% yfir langtímameðaltali áranna 1974-2016 sem er 41.880 laxar. Veiðin 2017 var um 6.800 löxum minni en hún var 2016, þegar 53.329 laxar veiddust á stöng. Í tölum um heildarlaxveiði eru þeir laxar sem upprunnir eru úr sleppingum gönguseiða og einnig þeir laxar sem er sleppt aftur í stangveiði (veitt og sleppt).  

Stangveiði í íslenskum ám 1974-2007

Mynd 1. Stangveiði í íslenskum ám frá 1974-2017. Veiðinni var skipt í landaðan afla (blátt), veitt og sleppt (grænt) og veiði úr sleppingum gönguseiða (rautt). Tölur frá 2017 eru bráðabirgðatölur.

Laxar úr gönguseiðasleppingum eru viðbót við náttúrulega framleiðslu ánna og þegar veitt er og sleppt í stangveiði veiðast sumir fiskar oftar en einu sinni. Til að fá samanburð við fyrri ár var metið hver laxveiðin hefði orðið ef engu hefði verið sleppt aftur og veiði úr sleppingum gönguseiða var einnig dregin frá. Sú niðurstaða leiðir í ljós að stangveiði á laxi 2017 hefði verið um 37.000 laxar, sem um rétt um meðalveiði villtra laxa. (2. mynd). Veiði í ám á suðvesturlandi (Reykjanes) var meiri en  árið á undan en veiði á Vesturlandi svipuð og var 2016 (3 mynd). Veiði dróst saman í öðrum landshlutum á milli ára. Laxveiðin sumarið 2017 fór fremur hægt af stað en góð veiði var í mörgum ám seinni hluta veiðitímans. Veiði af stórlaxi (laxi tvö ár í sjó) var með minna móti og átti það einnig við um smálaxa nema á Vesturlandi.  

Stangveiði í íslenskum laxveiðiám þegar laxveiði í hafbeitarám er undanskilinn og leiðrétt hefur verið fyrir áhrifum veiða og sleppa

Mynd 2. Stangveiði í íslenskum laxveiðiám þegar laxveiði í hafbeitarám er undanskilinn og leiðrétt hefur verið fyrir áhrifum veiða og sleppa.

Við samanburð á gögnum um veiði og talningu úr fiskteljurum, hefur komið í ljós að almennt endurspeglar veiðin laxgengdina en þó þannig að hlutfallslega veiðist meira þegar gangan er lítil. Breytileiki á milli ára í laxveiði hefur verið meiri nú síðustu árin en áður eru dæmi um. Ástæður þess má rekja til breytinga á afföllum laxa í sjó. Fæðuskilyrði ráða þar miklu þar sem vöxtur, einkum á fyrstu mánuðunum í sjó, er minni í árum þegar laxgengd er lítil en meiri þegar laxgengd er meiri. Vatnshiti í ám hér á landi fór lækkandi frá 2003 til 2015. Í kjölfar þess dró úr vaxtarhraða seiða sem leiðir til þess að gönguseiðaaldur hefur hækkar og framleiðsla ánna dregst saman. Það tekur því lengri tíma fyrir seiðin að ná göngustærð í ánum en áður.

Laxveiði sumarið 2017 eftir landshlutum

Mynd 3. Laxveiði sumarið 2017 skipt eftir landshlutum. Á suðurlandi er gerður greinarmunur á veiði á villtum laxi (blátt) og laxi úr hafbeitarám (rautt).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?