Þorskmerkingar

Þorskur

Markmiðið er að skoða göngur þorsks á Íslandsmiðum og tengingu hans við nærliggjandi hafsvæði. Einnig að kanna far ungþorsks af uppeldissvæðum.

Þorskmerkingar hófust aftur í mars 2019 eftir nokkuð hlé og hefur þorskur verið merktur í nokkrum leiðöngrum árin 2019 – 2021. Merkingar hafa farið fram á Vestfjarðarmiðum, á Kolbeinseyjarhrygg, í Arnarfirði, Ísafjarðardjúpi, útaf Suðausturlandi og á hrygningarsvæðum frá SA-landi að Breiðafirði og í Öxarfirði (1. mynd). Alls hafa rúmlega 12.000 þorskar í öllum stærðarflokkum verið merktir á þessum þrem árum.

myndir af merkingarstöðum

1. mynd. Merkingastaðir árin 2019-2021.

Endurheimtur úr merkingum árið 2019
Nú hafa 160 þorskar verið endurheimtir úr merkingum árið 2019. Flestir þeirra voru merktir á Vestfjarðarmiðum (94) en næstflestir á Kolbeinseyjarhrygg (17). Endurheimtuhlutallið er 10,3% af Vestfjarðarmiðum og 5,3% af Kolbeinseyjarhrygg. Færri þorskar hafa verið endurheimtir úr Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi en við því er að búast þar sem þeir þorskar voru minni og lægra hlutfall þeirra komið inn í veiðarnar.

Á fæðuöflunartíma endurheimtust flestir þorskarnir fyrir norðan og einnig leituðu þeir austur með Norðurlandi (2. mynd). Á hrygningartíma endurheimtust flestir við Suðvestur- og Vesturland. Ungþorskar sem merktir voru í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi hafa flestir verið endurheimtir á fæðutíma út af Vestfjörðum og í Breiðafirði.

merk2019

2. mynd. Endurheimtur úr merkingum árið 2019, svartir punktar sýna merkingastað, rauðir sýna endurheimtur á fæðutíma, bláir á hrygningartíma og gráir þegar endurheimtumánuður er óþekktur.

Endurheimtur úr merkingum árið 2020
Búið er að endurheimta 16-65 þorska frá hverju svæði eða alls 156 þorska úr merkingum í apríl 2020. Frá hverju svæði hefur svipað hlutall þorska verið endurheimt en endurheimtuhlutfallið er á milli 6,6-7,5%.

Almennt voru fleiri þorskar endurheimtir á fæðutíma, á tímabilinu frá júní-febrúar. Þorskar sem voru merktir í Breiðafirði endurheimtust flestir í Breiðafirði, útaf Vestfjörðum og fyrir norðan landið (3. mynd). Þrír þorskar endurheimtust við suðvestur land og einn fyrir austan land. Þorskar sem voru merktir við Reykjanes endurheimtust flestir í kringum Reykjanesið en sex þorskar endurheimtust útaf Vestfjörðum og fyrir norðan land. Þorskar sem voru merktir við suðaustur ströndina endurheimtust flestir fyrir austan land en tveir endurheimtust fyrir vestan og tveir fyrir norðan. Þorskar sem voru merktir í Fjörunni fóru vestur með landinu og flestir endurheimtust í Faxaflóa, Breiðafirði og útaf Vestfjörðum en þrír þorskar endurheimtust á svæðinu frá Eyjafirði að Þistilfirði.

endurheimt merkinga 2020

3. mynd. Endurheimtur úr merkingum árið 2020, svartir punktar sýna merkingastað, rauðir sýna endurheimtur á fæðutíma, bláir á hrygningartíma og gráir þegar endurheimtumánuður er óþekktur.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?