Hrognkelsismerkingar

Hrognkelsi

Hrognkelsi lifa í efstu lögum sjávar á hafsvæði sem nær frá Austur Grænlandi, allt í kringum Ísland og norður með Noregi að Svalbarða (1. mynd). Þau hrygna á grunnsævi við Noreg og Ísland en þegar ungviðið stækkar færa þau sig í úthafið þar sem þau dvelja þar til þau koma inn til hrygningar. Útbreiðslusvæði hrognkelsa er stórt og óljóst hvort einstaklingarnir muni hrygna við Ísland eða Noreg.

mynd af útbreiðslu hrognkelsis

1. mynd. Útbreiðsla hrognkelsa í makrílleiðangri árið 2018.

Það er margt sem við vitum ekki um hrognkelsi, sérstaklega á þeim tíma sem þau eru í úthafinu. Merkingar á hrognkelsi hafa verið stundaðar síðustu ár í samvinnu við BioPol, Náttúrufræðistofnun Grænlands og Hafrannsóknastofnunina í Noregi. Markmiðið með þessum merkingum er að svara eftirfarandi spurningum:

  • Hvar koma hrognkelsi inn til hrygningar?
  • Hve langan tíma eru hrognkelsi í úthafinu áður en þau koma inn til hrygningar?
  • Hver er vaxtarhraði hrognkelsa?

Ekki er vitað til þess að ungviði hafi áður verið merkt með þessum hætti en endurheimtur geta gefið mjög mikilvægar upplýsingar um líffræði hrognkelsa sem hægt er að nýta í stofnmat.

mynd af hrognkelsi

2. mynd. Hrognkelsi merkt með Peterson diskamerki.

Merkingar árin 2018-2020

Merkingar á hrognkelsum hafa farið fram árin 2018-2020. Árin 2018 og 2019 var merkingasvæðið svipað en þá var merkt suður með Grænlandi, milli Grænlands og Íslands og fyrir norðan og norðaustan Ísland. Árið 2020 var merkt á stærra svæði en þá var einnig merkt á hafsvæðinu milli Íslands og Noregs, og við Noreg og Jan Mayen.

Enn sem komið er hafa ekki mörg hrognkelsi verið endurheimt. Búið er að endurheimta fjögur hrognkelsi sem merkt voru árið 2018. Þau endurheimtust í Breiðafirði, Húnaflóa og við Langanes (3. mynd). Þrjú hrognkelsi hafa verið endurheimt frá árinu 2019, bæði við Langanes, og fjögur úr merkingum árið 2020, öll fyrir norðan landið.

mynd af merkingarstöðum

3. mynd. Merkingastaðir (grænir punktar) árin 2018-2020 og endurheimtur (appelsínugulir punktar).

Síða uppfærð 24. júní 2021

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?