Hlýramerkingar

Hlýri

Árið 2014 var ákveðið að hefja merkingar á hlýra með rafeinda- og slöngumerkjum. Merkingarnar fóru fram í leiðöngrum Hafrannsóknastofnunar, stofnmælingu botnfiska að vori og stofnmælingu botnfiska að hausti. Hlýrastofninn við Ísland hafði almennt farið minnkandi frá árinu 1996 og á Hafrannsóknastofnun höfðu menn áhyggjur af stöðu stofnsins, talið var brýnt að auka rannsóknir á honum og voru þessar merkingar liður í því. Rafeindamerkin sem notuð voru í þessar rannsókn voru endurheimt merki úr steinbít, en á árunum 2012-2015 voru merktir 349 steinbítar með rafeindamerkjum.

Merkingar árin 2015-2016

Á árunum 2015-2016 voru 103 hlýrar merktir með slöngumerki en þar af voru 43 hlýrar einnig merktir með rafeindamerki. Merkingarnar fóru fram að vori á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni (A2-2015 og A3-2016) og að hausti á togurunum Jóni Vídalín (TJ1-2015) og Ljósafelli (TL2-2016) (1. mynd). Almennt endurheimtist hlýrinn úr þessum merkingum nálægt þeim stað sem hann var merktur á. Undantekningar voru þó á því, eins og í merkingunni í leiðangri A3-2016, en í henni endurheimtist einn hlýri, tæpum 2 árum eftir að hann var merktur, út af Tjörnesi eða 350 km frá þeim stað sem hann var merktur á (1. mynd). Fiskar sem hafa endurheimst úr þessum merkingum voru 2 til 1812 daga í sjó þ.e. frá því að þeir voru merktir og þar til að þeir endurheimtust, eða að meðaltali 456 daga í sjó. Í heildina hafa 23 hlýrar verið endurheimtir eða 22% af þeim hlýrum sem voru merktir. Af 60 fiskum sem voru einungis merktir með slöngumerki hafa endurheimst 11% og af þeim 40 fiskum sem voru merktir bæði með slöngu- og rafeindamerki hafa 37% endurheimst.

mynd af merkingarstöðum hlýra

1. mynd. Svörtu puntarnir sýna merkingarstaði, bláu puntarnir sýna endurheimtustaði á hrygningartíma (ágúst-desember) og rauðu puntarnir endurheimtustaði á fæðutíma (janúar-júlí). Í sviganum er fyrsta talan heildarfjöldi merktra, síðan hvað margir af þeim voru líka merktir með rafeindamerkjum. Í hornklofanum er fyrsta talan heildarfjöldi endurheimtra fiska og seinni talan hvað margir af þeim voru með rafeindamerki. Fyrir aftan hornklofann er fyrri talan hversu mörg prósent hafa endurheimst og sú seinni hversu mörg prósent hafa endurheimst af þeim fjölda sem var merktur með rafeindamerkjum.

Merkingar árið 2021

Árið 2021 var ákveðið að merkja hlýra í stofnmælingu botnfiska að vori. Staða hlýrastofnsins hafði versnað frá árinu 2014 og hafði Hafrannsóknastofnun lagt til í júní árið 2020 að sjómönnum yrði veitt heimild til að sleppa hlýra umfram kvóta. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið veitti þessa heimild þann 14. desember 2020. Tilgangur merkinganna var m.a. að kanna lífslíkur sleppts hlýra eftir veiðar. Merktir voru 145 hlýrar með tveimur slöngumerkjum; á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni voru merktir 86 hlýrar, aðallega út af Vestfjörðum, og á togaranum Gullveri voru merktir 59 hlýrar austur af Íslandi (2. mynd).

mynd sýnir merkingastaði og endurheimtustaði

2. mynd. Svörtu puntarnir sýna merkingarstaði og þeir rauðu endurheimtustaði.

Það hafa aðeins endurheimst tveir hlýrar úr merkingunni vorið 2021; annar fiskurinn veiddist viku eftir merkingu á svipuðum stað og hann var merktur á, hinn um mánuði eftir að hann var merktur, um 70 km austan við merkingastaðinn (2. mynd).

 

 

 

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?