Svif í Norðurhöfum

Átan í hafinu er sjaldnast jafndreifð, heldur er hún hnapp- eða hópdreifð. Hvað veldur þessu dreifingarmynstri er ekki vel þekkt. Aukin þekking er mikilvæg í fræðilegu samhengi, en getur einnig nýst til að bæta mat á stofnstærðum átustofna. Þá er aukin þekking á dreifingarmynstri átu og þeim þáttum sem áhrif hafa á hana mikilvæg ef til þess kemur að átan verði veidd til nýtingar.

Markmið verkefnisins er að ákvarða þá eðlis- og líffræðilegu þætti sem stuðla að myndun átuflekkja eða -torfa í hafinu. Um er að ræða samvinnuverkefni við norska vísindamenn og hafa fengist styrkir til verksins frá norskum og norsk-íslenskum rannsóknasjóðum.

Til rannsókna var farin einn leiðangur á norska rannsóknaskipinu Helmer Hanssen í apríl-maí 2017 á svæðið vestur af Lofoten (Vesturáll). Annar leiðangur er fyrirhugaður í júní 2018. Í rannsóknunum er lögð áhersla á að rannsaka dreifingu rauðátu, sem er algengasta svifdýrið í Norður-Atlatnshafi í lífmassa talið. Til að meta dreifingu og útbreiðslu átunnar er beitt margvíslegum aðferðum, átuháfum, myndavélatækni (svifsjá), bergmálstækni og fjarkönnun (mæling á ætluðum litaarefnum rauðátu með gervitunglamyndum). Þannig er dreifing átunnar metin bæði á fínkvarða og stórkvarða.

Í leiðangrinum í vorið 2017 fundust víðattumiklir rauðátuflekkir út af Lofóten. Í gangi er vinna við að greina þéttleika og aldurssamsetningu rauðátu í og utan við þessa átuflekki. Einnig er verið að vinna úr gervihnattamyndum af rannsóknasvæðinu til að kanna hvort greina megi litaarefni rauðátu á þeim. Þá er unnið að því að tengja útbreiðslumynstur átunnar við straumalíkön frá svæðinu til að kanna áhrif straum á tilurð átuflekkjanna.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?