Norðurá 2014. Samantekt um fiskirannsóknir

Nánari upplýsingar
Titill Norðurá 2014. Samantekt um fiskirannsóknir
Lýsing

Í stangveiðinni í Norðurá árið 2014 veiddust 924 laxar, 65 urriðar og 5 bleikjur. Hlutfall smálaxa í veiðinni var tæp 73% og vógu 2,11 kg að meðaltali en stórlaxarnir námu 27% veiðinnar og vógu 5,19 kg að meðaltali. Örlaxar (litlir 1 árs laxar úr sjó) voru áberandi í veiðinni og spannaði þyngdardreifing smálaxa frá 0,6 – 3,9 kg. Rúmlega 34% laxa var sleppt í veiðinni. Laxveiðin dróst mikið saman á milli ára og var einungis 26,4% af veiði ársins 2013 og 52,4% af meðalveiði áranna 1968 – 2014. Nettóganga upp fyrir fiskteljarann í Glanna nam 120 silungum og 1058 löxum, þar af var hlutdeild stórlaxa 17,2%. Um þriðjungur stórlaxa gekk í júní og tæp 60% í júlí. Tæp 75% smálaxa gekk í júlí og í lok ágúst var nánast öll laxaganga yfirstaðin. Veiðihlutfall á laxi var 29%, þar af 27,2% á smálaxi og 38,5% á stórlaxi. Rannsökuð voru 140 hreistursýni og var hlutdeild laxa á endurtekinni hrygningargöngu 10%. Ferskvatnsdvöl spannaði 2 – 5 ár og var meðalaldur við útgöngu 3,6 ár. Smálaxar úr veiðinni 2014 sýndu 30,6 cm sjávarvöxt; 3,8 cm undir meðalvexti á tímabilinu 1988 – 2014. Laxveiðin 2014 samanstóð af löxum úr klaki áranna 2007 – 2010 en helming veiðinnar má rekja til klakárgangs 2009 og rúm 30% til klakárgangs 2010, samanlagt 747 fiskar, eða um 81% veiðinnar. Þéttleiki laxaseiða í Norðurá hefur aukist verulega síðasta áratug og er sá fjórði mesti frá árinu 1988. Meðallengd vorgamalla laxaseiða var 3,5 cm; 5,9 cm hjá seiðum á öðru ári; 7,7 cm hjá seiðum á þriðja ári og 9,3 cm hjá seiðum á fjórða ári. Laxaseiði á fimmta ári komu fram í rafveiðunum þetta árið en þeirra var seinast vart árið 2002. Meðallengd allra aldurshópa laxaseiða var minni en í mælingunum 2013 og reyndist jafnframt undir meðaltali tímabilsins 1988 – 2014. Meðallengd urriðaseiða mældist 3,8 cm hjá vorgömlum seiðum, 6,9 cm hjá seiðum á öðru ári, 10,4 cm hjá seiðum á þriðja ári og 12,2 cm hjá seiðum á fjórða ári. Holdastuðull laxaseiða mældist rétt yfir 1,0 hjá öllum aldurshópum og var 1,03 að meðaltali fyrir allt svæðið. Lélegur vöxtur smálaxa í sjávardvölinni bendir til þess að vaxtarskilyrði í hafi sumar og haust 2013 hafi verið laxinum óhagstæð. a

Skráarviðhengi Ná í viðhengi
Flokkun
Flokkur Útgáfa Veiðimálastofnunar (1948-2016)
Útgáfuár 2015
Leitarorð laxveiði, lax, urriði, örlax, seiðaþéttleiki, sjávarvöxtur, veiðihlutfall, fiskteljari, hrygningarganga, klakárgangur
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?