Laxastofn Langár á Mýrum. Framvindurannsóknir árið 2014

Nánari upplýsingar
Titill Laxastofn Langár á Mýrum. Framvindurannsóknir árið 2014
Lýsing

Í Langá 2014 veiddust 595 laxar og var hlutdeild stórlaxa í veiðinni 9%. Laxveiðin var sú minnsta sem skráð hefur verið frá 1974 og einungis um þriðjungur meðalveiði í ánni. Fiskteljarar eru starfræktir í fiskvegum við Skuggafoss og Sveðjufoss. Nettóganga upp fyrir Skuggafoss var 869 laxar og 411 laxar gengu upp fyrir Sveðjufoss. Lax gengur einnig framhjá Skuggafossi, en öll gangan fer um teljarann við Sveðjufoss.  Veiðihlutfall á laxi ofan Sveðjufoss var 47%, þar af var hlutdeild smálaxa 46% og stórlaxa 75%. Hrognafjöldi Langár var áætlaður 1,6 milljónir hrogna eða 1,62 hrogn/m2 og er þetta minnsta hrygning í ánni tímabilið 1974 til 2014. Myndgreining hreistra af 10% laxveiðinnar sýndi að ferskvatnsdvöl laxanna var á bilinu 1 - 4 ár. Um 2% sýna voru áætluð af sleppiuppruna. Ummerki um fyrri hrygningu greindust hjá 12,5% sýnanna. Klakárgangar áranna 2009 til 2010 höfðu 83,4% hlutdeild í laxveiðinni. Í seiðarannsóknum veiddust 1198 laxaseiði af fjórum aldurshópum (0+ til 3+). Seiðavísitala Langár mældist 52,6 seiði/100m2 og var 40% yfir meðaltali áranna 1986 til 2014. Vísitala allra aldurshópa var langt yfir meðaltali utan seiða á öðru ári, sem mældust lítillega undir meðaltali. Meðallengd allra aldurshópa að frátöldum seiðum á þriðja aldursári reyndust lítillega undir langtíma meðaltali fyrir Langá.
          

Skráarviðhengi Ná í viðhengi
Flokkun
Flokkur Útgáfa Veiðimálastofnunar (1948-2016)
Útgáfuár 2015
Leitarorð lax, fiskteljarar, veiðihlutfall, hrygning, seiðabúskapur, hreistursýni, fiskrækt
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?