Langá á Mýrum 2011. Samantekt um fiskirannsóknir

Nánari upplýsingar
Titill Langá á Mýrum 2011. Samantekt um fiskirannsóknir
Lýsing

Í Langá voru starfræktir fiskteljarar við Skuggafoss neðst í ánni og við Sveðjufoss, 13 km ofar. Alls gengu 1381 lax um fiskteljarann við Skuggafoss, en laxveiðin ofan við Skuggafoss var 1577 laxar. Stór hluti göngunnar 2011 hefur því gengið framhjá fiskteljaranum um Skuggafoss, en fossinn er gönguhindrun fyrir lax. Í fiskveginum við Sveðjufoss gengu 1431 lax, þar af 1410 smálaxar og 21 stórlax, en Sveðjufoss er algjör gönguhindrun fyrir lax. Alls veiddust 450 laxar ofan við Sveðju og var veiðihlutfall smálaxa 31,1% og stórlaxa 52,4%. Í Langá veiddust alls 1905 laxar, þar af 1854 smálaxar (97,3%) og 51 stórlax (2,7%). Alls var 304 löxum sleppt, 15,5% smálaxa og 37,3% stórlaxa, en í heild var 16% veiðinnar sleppt. Hlutfall stórlaxa var 2,3% af gönguseiðaárganginum frá 2009, en stórlaxi hefur fækkað gríðarlega í Langá eins og í öðrum íslenskum veiðiám. Greind voru 58 hreistursýni úr veiðinni 2011, öll af eins árs laxi sem gekk í fyrsta sinn til hrygningar. Laxar af náttúrulegum uppruna höfðu að meðaltali dvalið 3,5 ár í ánni og spannaði ferskvatnsaldur 3 -5 ár. Klakárgangar frá 2006 og 2007 voru uppistaða veiðinnar og var árgangur frá 2007 stærstur með 55,2% veiðinnar. Í sýnum voru 2 sýni af eldisuppruna eða 3,4% sýnanna. Mælingar á seiðabúskap fóru fram 23. – 24. ágúst.  Samanlögð seiðavísitala laxaseiða mældist 46.6 seiði á 100 m2 og minnkaði seiðafjöldinn nokkuð frá 2010, en magn 0+ og 1+ seiða var langt yfir langtíma meðaltali, en eldri seiði mældust undir meðaltali. 

Skráarviðhengi Ná í viðhengi
Flokkun
Flokkur Útgáfa Veiðimálastofnunar (1948-2016)
Útgáfuár 2012
Leitarorð laxveiði, fiskteljari, veiðihlutfall, seiðabúskapur, hreistursýni
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?