Gljúfurá 2013. Samantekt um fiskirannsóknir

Nánari upplýsingar
Titill Gljúfurá 2013. Samantekt um fiskirannsóknir
Lýsing

Í Gljúfurá veiddust 569 laxar og 25 urriðar. Rúmum 9% laxveiðinnar var sleppt. Hlutfall hrygna var rúmlega 52% af smálaxaveiðinni en af stórlöxum var hlutfall hænga tæp 64%. Meðalþyngd smálaxa var 2,3 kg en stórlaxa 5,4 kg. Laxveiði í Gljúfurá var skráð á 54 veiðistaði og var gjöfulasti veiðistaðurinn Geitaberg (nr. 240) en þar veiddust 43 laxar. Stöðug veiði var allan veiðitímann með áberandi veiðitoppi í vikunni 9.-15. júlí en þá veiddust 105 laxar. Urriði veiddist á 13 veiðistöðum og var mesta silungsveiðin eftir 20. ágúst. Laxveiðin í Gljúfurá 2013 jókst um tæp 422% á milli ára og var 256% yfir meðalveiði tímabilsins 1974 – 2013 og sú næst mesta frá upphafi. Nettóganga upp fyrir teljarann var 1.059 fiskar sem skiptist í 68 silunga, 859 smálaxa og 132 stórlaxa. Laxagangan var kröftugust frá því í lok júní fram til 20. júlí en í júlímánuði gekk rúm 60% smálaxins og rúm 70% stórlaxins. Veiðihlutfall á laxi ofan teljarans var rúmlega55 % en skiptist þannig að veiðihlutfall á smálaxi var tæplega 61% en á stórlaxi tæp 20%. Aldursgreind voru 62 hreistursýni, öll af löxum af náttúrulegum uppruna, og var 98% sýnatökunnar af smálaxi á sinni fyrstu hrygningargöngu. Eitt sýni var af stórlaxi sem reyndist á sinni annarri hrygningargöngu.  Ferskvatnsaldur spannaði 2 – 4 ár og var meðalaldur í ferskvatni 3,2 ár. Veiðin 2013 samanstóð af klakárgöngum frá 2006 - 2010 og var mesta hlutdeildin af klakárgangi 2009 eða rúm 60% og tæp 30% af klakárgangi 2008 (tafla 9). Við rafveiðar í Gljúfurá veiddust 378 laxaseiði af fjórum árgöngum, 33 urriðaseiði af þremur árgöngum og 3 hornsíli. Á stöðvum 1 – 3 mældist þéttleiki laxaseiða frá tæpum 50 upp í tæp 85 en lítill þéttleiki mældist á neðstu stöðinni (stöð 5) eða 9,3/100 m2 . Vísitala seiðaþéttleika laxaseiða mældist að meðaltali 47,7 /100 m2 og var rétt yfir langtímameðaltali. Hámarktækt samband kom fram milli þéttleika 0+ seiða úr Gljúfurá og laxveiði af sama klakárgangi (r2=0,61 p=0,001).  

Skráarviðhengi Ná í viðhengi
Flokkun
Flokkur Útgáfa Veiðimálastofnunar (1948-2016)
Útgáfuár 2014
Leitarorð laxveiði, fiskteljarar, hreistursýni, klakárgangur, veiðihlutfall, seiðabúskapur
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?