Lýsing |
Í stangveiðinni á vatnasvæði Flekkudalsár árið 2013 veiddust 173 laxar og 16 urriðar og var 2,3% laxveiðinnar sleppt. Smálaxinn hélt uppi veiðinni og var hlutur stórlaxa einungis 3,5%. Meðalþyngd smálaxa var 2,21 kg en stórlaxa 4,2 kg. Laxveiðin á vatnasvæðinu jókst um 31,1% frá veiðinni 2012 en var 35,2% undir meðalveiði tímabilsins 1974 – 2013. Lax veiddist á 31 veiðistað og flestir fiskar voru dregnir á land á veiðistað 312 í Tunguá, 26 talsins. Hreistursýni af 24,9% veiðinnar voru aldursgreind. Öll sýnin voru af löxum af náttúrulegum uppruna og stærstur hlutinn af 1 árs löxum úr sjó (88,4%). Fimm sýni reyndust af löxum með 2ja ára sjávardvöl að baki, þar af þrjú með gotmerki í hreistri. Ferskvatnsaldur spannaði 2 - 4 ár en meðalaldur við útgöngu var 3,4 ár. Veiðin 2013 samanstóð af löxum úr klakárgöngum 2007 - 2010 en árgangar 2008 og 2009 báru uppi veiðina og gáfu 166 laxa (95,9%). Vísitala seiðaþéttleika á öllu svæðinu var 18,6/100 m2 eða 8,5/100 m2 lægri en í mælingunum 2012 en 5,4/100 m2 hærri en langtímameðaltalið. Þéttleiki allra aldurshópa (nema 4+ sem stóð í stað) lækkaði á bilinu 1,1 – 3,4/100 m2 á milli ára, mest hjá vorgömlum seiðum. Haustið 2013 gerði Veiðifélag Fellsstrandar leigusamning við stangveiðifélagið Fiskiflugur ehf. um veiðiréttinn á vatnasvæðinu. Þrjár stangir eru í útleigu, frá 1. júlí – 10. september. Til stendur að gera breytingar á veiðistjórnun og opna fyrir tilraunaveiði á efri hluta Flekkudalsár en auk þess verður ríkari áhersla lögð á sleppingar á laxi og kvóti hertur. |